Ekki mús, heldur skata

Greinar

Íslenzka krónan fylgdi spænska pesetanum um helgina af eðlilegum viðskiptaástæðum. Hún var felld um sama hlutfall, 6%, í stað þess að láta hana bíða eftir norsku krónunni, sem lafði um helgina, enda hafa Norðmenn olíuauð og kaupa fátt eitt afurða frá Íslandi.

Með gengislækkuninni var staða krónunnar nokkurn veginn löguð að breytingum á gengi gjaldmiðla á undanförnum vikum. Sterlingspundið skiptir okkur miklu og það hafði fallið um 5%, þegar það var slitið úr tengslum við gjaldmiðlastýringu Evrópusamfélagsins.

Óhjákvæmilega mun lækkun krónunnar leiða til verðhækkana, af því að ríkisstjórnin vill ekki taka á vandamáli, sem heldur uppi háu verðlagi. Þessi vandi felst í margvíslegum stuðningi við hefðbundinn landbúnað, þar á meðal í banni við innflutningi búvöru.

Með því að hvika örlítið frá stefnu innflutningsbanns hefði ríkisstjórnin getað eytt áhrifum gengislækkunarinnar á verðlag. Með því að hvika aðeins meira frá bannstefnunni hefði ríkisstjórnin getað gert gott betur og bætt almenningi upp allt tap hans af skattahækkunum.

Að gengislækkuninni frátalinni er flest í skötulíki í efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar. Í heild má lýsa þeim á þann hátt, að atvinnulífið er fjármagnað á kostnað almennings í stað þess að gera það með því að leggja niður úrelta ramma í landbúnaði og sjávarútvegi.

Ríkisstjórnin hefði átt að hafa forgöngu um, að veiðileyfagjald leysti kvótakerfið af hólmi í sjávarútvegi, um leið og gengi krónunnar væri gefið frjálst. Og ríkisstjórnin hefði átt að hefja í áföngum afnám innflutningsbanns, styrkja, uppbóta og niðurgreiðslna í landbúnaði.

Ef heilögu kýrnar væru í áföngum teknar af herðum neytenda og skattgreiðenda, væri nú þegar hægt að bæta lífskjör almennings, bæði með lægri sköttum og með lægra vöruverði, í stað þess að nú er verið að gera lífskjörin verri með hærri sköttum og hærra vöruverði.

Af því að ríkisstjórnin neitar að gera það, sem vit er í, neyðist hún til að fara út í hálfkák, sem í sumum tilvikum jafngildir sjónhverfingum. Í stað þess að breyta aðstöðugjaldinu beint í útsvar, er því breytt í tekjuskatt til ríkisins, sem það framselur síðan sveitarfélögum.

Af því að ríkisstjórnin neitar að gera ráðstafanir til að ná sköttum af þeim, sem hingað til hafa komið sér hjá þeim, neyðist hún til að hækka skatta á þeim, sem telja rétt fram og mest á þeim, sem mest og bezt telja fram. Um leið hvetur hún óbeint til aukinna skattsvika.

Fjármagnstekjuskattur er notaður í flestum löndum, þar á meðal í Bandaríkjunum. Athyglisvert er, að það er orðinn hornsteinn ríkisstjórnarinnar að koma með öllum tiltækum skattahækkunum í veg fyrir, að þessi eðlilegi skattur verði einnig tekinn upp hér á landi.

Að sjálfsögðu verður enginn friður um efnahagsskötu ríkisstjórnarinnar. Pakki gærdagsins kemur að litlu gagni við að leysa aðsteðjandi kreppu næstu mánaða, sem byggist á gæftaleysi af völdum ofveiði á þorski, er leggst ofan á langvinnan ríkisrekstur landbúnaðar.

Athyglisvert er, að fátt fæst nýtilegt út úr þrefi og þrúkki á ótal vígstöðvum, þar sem til skjalanna hafa meðal annars komið hálærðir menn í efnahagsmálum. Niðurstaðan er enn ein kollsteypan af því handaflstagi, sem gerir mönnum ókleift að áætla fram í tímann.

Fjallið tók jóðsótt, sem í senn var langvinn og hastarleg. Ekki var það mús, sem fæddist eins og í spakmælinu, heldur var það heldur ófrýnileg skata.

Jónas Kristjánsson

DV