Ekki talinn húsum hæfur

Punktar

Ingimundur Sigfússon reyndi að komast að raun um, hvort ritstjóri Vísis væri húsum hæfur. Hann bauð mér í lax í Víðidalsá. Sendi eftir mér flugvél í bæinn og sótti mig á jeppa upp á einhverja mela. Á leiðinni ók hann yfir hund í Víðihlíð. Þar voru nokkrir stórbændur á ferð. Ég seig niður í sætinu og Ingimundur stundaði diplómatíu í vegkantinum. Hann kom dasaður til baka og náði sér síðan ekki í túrnum. Í veiðinni lagðist ég í mosann og svaf, bleytti aldrei línu. Ingimundur komst fljótlega að raun um, að ég væri ekki húsum hæfur í fínum kreðsum, sem snerust um laxveiði. (Úr bókinni: Jónas Kristjánsson: Frjáls og Óháður, 2009)