Forsætisráðherra er ekki teflon-húðaður, þrátt fyrir öll fyrri merki þess. Eftir margar atrennur hefur Davíð Oddssyni loksins tekist að verða óvinsæll. Atlaga hans að auglýsingum öryrkja var fjöðrin, sem réð úrslitum á vegasaltinu. Kvóti Davíðs reyndist vera takmarkaður.
Auglýsingar öryrkja voru ekki eina umræðuefnið, sem var forsætisráðherra andstætt í vetur. Umræðan um fjárreiður stjórnmálaflokka hefur í heild sinni verið stjórnarflokkunum öndverð og mest þeim, sem héldu uppi vörnum, forsætisráðherra og fjármálaráðherra.
Á einum ársfjórðungi hafa óvinsældir forsætisráðherrans fjórfaldast og vinsældirnar minnkað um fjórðung. Þetta er í fyrsta skipti á ferli hans, að óvinsældirnar eru meiri en vinsældirnar. Svona getur farið, þegar ósigrandi hetjur storka örlögunum einu sinni of oft.
Hnekkir Davíðs skiptir máli, ekki aðeins sem viðvörun fyrir hann sjálfan, heldur einnig þá meðreiðarmenn hans, sem hafa upp á síðkastið reynt að stæla vinnubrögð hans í hroka og yfirgangi gagnvart umhverfi sínu, einkum þó fjármálaráðherrann og krónprinsinn Geir Haarde.
Svo langt hefur geðleysi stuðningsmanna hetjanna gengið, að farið var að tala um sjálfspyndingarþörf, þótt raunin sé sú, að stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins telja það verkefni forustumanna sinna en ekki sjálfs sín að hafa skoðanir á hlutunum og framkvæma þær.
Þar sem töfraljómi forsætisráðherra hefur dofnað í myrkri örorkunnar, er hugsanlegt, að kjósendur fari að átta sig á, að ekki er allt, sem sýnist. Það er ekki Framsóknarflokkurinn einn og hinir ógæfusömu ráðherrar hans, sem bera ábyrgð á rangri stjórnarstefnu.
Ráðamenn Sjálfstæðisflokksins eru hornsteinar gjafakvóta sægreifanna í sjávarútvegi, milljarðasukksins í landbúnaði, ofbeldis ríkisvaldsins gegn ósnortnum víðernum landsins og einkavinavæðingar alla leið á yztu nöf ókeypis afhendingar á sjúkraskrám landsmanna.
Geðlausir stuðningsmenn sættu sig við allt þetta, meðan þeir töldu, að forsætisráðherra skaffaði okkur góðæri. Nú er hins vegar svo komið, að Þjóðhagsstofnun og Seðlabanki vara við verðbólgu, sem ekki er lengur hin sama og í nágrenninu, heldur þreföld á við hana.
Á þessum ársfjórðungi, sem álit manna á forsætisráðherra hefur hrunið, hefur Samfylkingin reytt af Sjálfstæðisflokknum fylgi, sem nemur sexsjö þingmönnum. Ef Samfylkingin er að ná vopnum sínum eftir heils árs formannsleysi, er flokkur allra stétta kominn í vanda.
Ef sú staða verður nú varanleg í könnunum, að stjórnarandstaðan haldi til jafns við ríkisstjórnarflokkana, má búast við, að ríkisstjórnin fari að gæta betur að sér. Ef hún keyrir vondu málin af minna offorsi en áður, hefur þjóðin haft nokkurt gagn af sinnaskiptum vetrarins.
Við megum þá kannski eiga von á, að varlegar verði farið í ofbeldið gegn ósnortnum víðernum landsins, að einkavæðingin feli síður í sér afhendingu einokunar í hendur einkavina og að linað verði á skjaldborg stjórnvalda um gjafakvótann í sjávarútvegi.
Hitt vitum við, að hvorki munu eldur né brennisteinn knýja stjórnarflokkana til að koma upp sömu reglum um fjárreiður stjórnmálamanna og -flokka og gilda í öðrum vestrænum löndum. Það sem eftir er af jarðvist Framsóknarflokksins byggist á núverandi leyndarhjúp.
Aðalatriðið er þó, að teflon-húðin er brostin, enda er hún til lengdar engum holl, ekki þeim, sem hana ber, og enn síður værukærum og geðlitlum kjósendum.
Jónas Kristjánsson
DV