Nýr landbúnaðarráðherra okkar vill fá lækkaða tolla á íslenzkum hestum í útlöndum í kjölfar fréttar í DV um, að þýzka tollgæzlan sé að rannsaka meint tollsvik í innflutningi þeirra. Mikið er í húfi, því að hestar eru eina arðbæra útflutningsafurð landbúnaðarins.
Evrópskir tollar á íslenzkum hestum og eftirlit af hálfu tollgæzlu eru nákvæm endurspeglun íslenzkrar landbúnaðarstefnu. Þýzkir framleiðendur íslenzkra hesta njóta stuðnings yfirvalda við að vernda atvinnu sína nákvæmlega eins og íslenzkir bændur njóta.
Við getum tekið dæmi af ostinum Camembert, sem fundinn var upp í Frakklandi árið 1791. Innan Evrópusambandsins má enginn annar nota þetta heiti um eftirlíkingar af ostinum, en utan sambandsins er mikið um falsaðan Camembert, þar á meðal á Íslandi.
Nú má flytja til Íslands raunverulegan Camembert frá Frakklandi, en þá er settur á hann nokkur hundruð prósenta tollur til að verja eftirlíkinguna, sem framleidd er hér á landi. Við þurfum því ekki að verða hissa, þótt Evrópumenn geri slíkt hið sama við íslenzka hesta.
Munurinn á Íslandi og Evrópusambandinu er aðeins sá, að þar nema tollarnir nokkrum tugum prósenta, en ráðuneyti Guðna Ágústssonar lætur leggja á tolla, sem nema nokkrum hundruðum prósenta. Ísland er tíu sinnum harðskeyttara en Evrópusambandið.
Við eðlilegar aðstæður í heiminum mundu þeir vera látnir um að framleiða vöruna, sem bezt kunna á hana. Við eðlilegar aðstæður fengju allir að kaupa ekta Camembert án verndartolla og að kaupa ekta Íslandshesta, ræktaða á Íslandi, án verndartolla.
Stefna íslenzkra stjórnvalda á liðnum áratugum og í nútímanum hefur hins vegar stuðlað að því ástandi, að erlendir ræktendur íslenzkra hesta eru orðnir sjálfum sér nógir og vilja hafa heimamarkaðinn í friði fyrir þeim, sem streitast við að flytja hesta frá Íslandi.
Þetta er sjálfsþurftarstefnan, sem við þekkjum einstaklega vel hér á landi. Við eigum að vera sjálfum okkur nóg í framleiðslu búvöru, segja íslenzkir talsmenn kerfisins, sem nú er að drepa hrossaræktina. Þetta er nákvæmlega það, sem erlendir hrossaræktendur vilja.
Við skulum hafa alveg á hreinu, að það er Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra persónulega og allir hans nótar, sem bera ábyrgð á því, að útflutningur íslenzkra hesta er orðinn að fórnardýri stefnunnar, sem þeir hafa rekið áratugum saman og reka enn.
Það bylur því í ráðherranum eins og tómri tunnu, þegar hann grætur tolla á íslenzkum hrossum í útlöndum. Við hann sjálfan er að sakast, en ekki við þau ríki eða ríkjasambönd, sem við höfum samið við um gagnkvæma verndun innlendra landbúnaðarafurða.
Það er íslenzk landbúnaðarstefna, sem hindrar, að eina marktæka útflutningsafurð íslenzks landbúnaðar fái að njóta sín eins og hún á skilið. Um allan heim er mikill og ört vaxandi markaður fyrir íslenzka hesta á góðu verði, en útlendingar hirða markaðinn.
Íslenzkir hestar, ræktaðir við náttúrulegar aðstæður á Íslandi, eru betri en hestar sömu ættar, sem ræktaðir eru við aðrar aðstæður í útlöndum, til dæmis fótvissari og frjálslegri. En þeir eru þó fyrst og fremst ekta, rétt eins og franskur Camembert er ekta vara.
Herferð þýzka tollsins gegn hestum frá Íslandi er bein afleiðing þeirrar skaðlegu og íslenzku stefnu, að hver þjóð skuli vera sjálfri sér nóg í framleiðslu búvöru.
Jónas Kristjánsson
DV