Eldhúsið

Veitingar

Fegnastur varð ég, þegar Eldhúsið gleymdi mér og tók ekki niður matarpöntun. Eftir hóflega bið hafði ég löglega afsökun fyrir því að standa upp og rölta niður rúllustigann til Hard Rock Café og fá mér almennilega að borða á lægra verði.

Eldhúsið er mötuneyti og steikhús, en fyrst og fremst vönduð pakkning án markverðs innihalds. Umbúðirnar eru rustalega smart og minna á leikhús. Skilrúm eru úr frauðplasti, útveggir eru úr gleri með árituðum spakmælum. Opið er inn í eldhús og lagnakerfið er ekki falið með fölsku lofti. Á palli yfir miðjum sal er annexía með setustofu.

Við erum sett til borðs á tréstóla með sessum við tréplötur á steypujárnsfæti og fáum matseðil, sem ekki er síður töff en hönnun staðarins. Þar eru endalausir listar rétta og verðlagið er uppi í skýjunum. Meðalverð þríréttaðrar máltíðar með kaffi er 4.100 krónur á mann.

Í hádeginu er mikil og alþýðleg aðsókn og reyklausi hlutinn jafnan fullsetinn. Þá virðast flestir gestir önnum kafnir og skófla markvisst í sig af hlaðborði á 950 krónur með súpu, sem gerir 1.150 krónur með kaffi. Á hlaðborðinu reyndist vera lítt girnileg mötuneytisfæða, sitt lítið af salatefnum í litlum skálum og nokkrir heitir réttir í hitakössum, svo og ágætlega þunn sveppasúpa, sem bar af öðrum réttum hlaðborðsins. Heitu réttirnir voru brúnaðar risakartöflur, ólystugar svínakótilettur, dauft kryddaður pottréttur og hörpufisk-tómatsósu-pasta, sem ekki var árennilegt.

Þeir fáu, sem koma á kvöldin, eru skuggalegri og fá sér fremur hamborgara eða langlokur á heilar 1.200 krónur en einhvern réttanna af langa seðlinum. Spönsk bruschetta reyndist vera langskorið snittubrauð með tómabitum, osti og feiknamiklu af olífum, sem yfirgnæfðu í bragði. Sashimi var betri forréttur, fjórar tegundir af ferskum og hráum fiski á hrísgrjónakúlum. Beztur var djúpsteiktur smokkfiskur, ágætlega meyr og fagurt upp settur, með sinneps- og hvítlaukssósu.

Aðalréttir voru lakari. Bakaður saltfiskur bragðdaufur var borinn fram í djúpri pönnu, mest tómatbitar, dálítið af þistilhjörtusneiðum og bræddum osti, en minnst af fiski. Hunangssteinbítur var mun betri, ágætlega meyr, eldaður upp á japönsku með engifer fremur en hunangi. Kolagrilluð keila með yfirgnæfandi tómatsósu var sjálf ágæt, en borin fram með upphitaðri kartöflu og brenndum grænmetisræmum. Hunangssteiktur kjúklingur var afar þurr, enda þarf víst nú orðið að elda af nokkurri grimmd úr honum kamfýluna.

Flest var sparað til að tryggja, að kúnninn fengi ekki of mikið fyrir háa verðið. Kotroskinn gutti í móttökunni var úti að aka, þjónusta ólærð og munnþurrkur úr pappír. Þetta er mötuneyti í hádeginu og á kvöldin tómatsósu-steikhús, sem dreifir um sig olífum, en tekst ekki að minna á Miðjarðarhafið. Eldhúsið í Kringlunni er dæmigerður sýndarveruleiki nýrrar aldar, sóun á fjármunum viðskiptamanna og hlýtur því að dafna vel.

Jónas Kristjánsson

DV