Þegar allir eru í sveitinni og ég er einn heima að vinna, nenni ég ekki nema stundum að elda ofan í mig heitan mat. Ég freistast til að fara út að borða. Kvöldmatur þarf ekki að vera dýr í bænum. Á Krua Thai borga ég 1200 krónur, en umhverfið á staðnum er ekki aðlaðandi. Múlakaffi kostar 1300 krónur, en þar er maturinn geymdur í hitakössum. Tvíréttaður eða meiri alvörumatur fæst í Kínahúsinu á 1900 krónur, 2250 á Pottinum og pönnunni, 2450 á Jómfrúnni og 2950 krónur á Maru, á Þremur frökkum hjá Úlfari og á Laugaási. Miðað við gæði eru þetta frambærilegar upphæðir.