Frá Efra-Fáki í Faxabóli um Elliðaár að Neðra-Fáki í Blesugróf.
Þetta er ný reiðleið, að mestu sunnan árinnar. Ágætis reiðvegur í hlýlegu umhverfi. Göngubraut er samhliða reiðslóðinni. Mikilvægt er, að þessi reiðleið verði varðveitt, því að ekki er reiðfært annars staðar í borginni.
Þjóðleiðin úr bænum lá áður norðan árinnar. Hún lá niður Bústaðaveginn að suðurenda hesthúsanna á horni Bústaðavegar og Reykjanesbrautar. Þaðan var farið yfir syðri kvísl árinnar á Ártúnsvaði við Búrfoss rétt sunnan undirganganna. Áfram var haldið í beina stefnu um árhólmana og yfir nyrðri kvíslina vestan við rafstöðina undir brekkurótum Ártúns, síðan um Reiðskarð upp í Árbæ. Örn H. Bjarnason kallar þetta Via Appia Reykjavíkur. Þyrfti að gera leiðinni betri sóma, endurgera hana fyrir reiðmenn og gangandi fólk. Nú er komið veitingahús í Árbæ, en áður var slík aðstaða í Ártúni. Við Árbæ greindust síðan leiðir suður og vestur á land. Nú greinast þær reiðleiðir við Rauðavatn. Flúðirnar ofan við brúna á Vatnsveituvegi eru hressandi ásýndum. Neðan við Höfðabakkabrú tekur við skógurinn handan árinnar og í árhólmunum. Elliðaár og dalurinn heita eftir Elliða, skipi Ketilbjörns gamla landnámsmanns. Í gamla daga lá leiðin áfram vestur Bústaðaveg.
Förum frá Faxabóli greinilega merkta slóð eftir aflögðum bílvegi niður með Elliðaám, svonefndum Vatnsveituvegi. Fyrst norðaustan árinnar, síðan yfir brú og áfram suðvestan árinnar. Förum um undirgöng undir Höfðabakka og síðan niður brekkur í Blesugróf og áfram norður með Reykjanesbraut að undirgöngum við hesthús Neðra-Fáks. Förum um undirgöngin og upp í gerði við hesthúsin.
3,9 km
Reykjavík-Reykjanes
Nálægir ferlar: Reykjavík, Rauðhólahringur, Rauðavatnshringur, Jórukleif.
Nálægar leiðir: Elliðavatn, Kóngsvegur, Mosfellssveit, Dyravegur.
Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson