Embættispróf bænda

Greinar

Ekki er furða, þótt ríkisstjórnin og þingflokkar hennar séu þessa dagana í fullri alvöru að ræða frumvarp landbúnaðarráðherra um embættispróf fyrir bændur, enda mun lögverndun embættisheitis þeirra væntanlega fylgja í kjölfarið, eins og hjá kennurum í fyrrahaust.

Samanlagt velta bændur um tíunda hluta fjárlaga ríkisins. Það er næstum eins mikið fé og skólakerfið veltir. Eðlilegt er, að ríkisvaldið skipuleggi menntun og miðstýri stöðu þeirra eins og annarra embættismanna, sem fara þó með minni fjárfúlgur á vegum ríkisins.

Íslenzkur landbúnaður er ekki atvinnuvegur, heldur hluti ríkisgeirans, dæmigerð opinber starfsemi. Þess vegna er ekki eðlilegt, að bændur valsi um meira eða minna próflausir eins og hverjir aðrir iðnrekendur eða kaupsýslumenn, sem búa við sviptingar markaðsafla.

Einnig verður að hafa í huga, að mikilvægi og þyngd þessa hluta ríkisgeirans fer vaxandi með hverju árinu. Fyrir stuttu ákvað landbúnaðarráðherra að veita eggja- og kjúklingabændum opinber embætti eins og bændum í hinum hefðbundnu greinum kúa- og kindaumsýslu.

Svokölluð sexmannanefnd, sem hefur áratuga reynslu af að reikna laun embættismanna í hefðbundnum búgreinum, hefur nú tekið að sér að reikna laun eggja- og kjúklingabænda á sama hátt. Í því skyni verður almenningur að venju látinn taka upp budduna.

Senn líður að inngöngu refabænda í embættiskerfi ríkisins. Vegna misskilnings hafa þeir verið látnir keppa á erlendum markaði eins og um einhvern atvinnuveg væri að ræða. Að vísu hafa opinberir sjóðir borgað fjárfestinguna og ekki rukkað neinar afborganir.

Svo virðist sem hinir opinberu hafi aldrei reiknað með að fá neitt til baka af milljarðinum, sem þeir hafa sökkt í refina. Og nú gera þeir ráð fyrir að byrja að borga með rekstri refabúa og fóðurstöðva. Síðar má endanlega gera þessi störf að embættum hjá ríkinu.

Undanfarið hefur gætt vaxandi óánægju meðal embættismanna í landbúnaði út af of miklum fjölda í stéttinni. Sex milljarðarnir, sem ríkið ver til þessa geira hins opinbera, fara í of marga vasa, svo að flestir þeirra eru á of lágum launum eins og aðrir embættismenn.

Þegar embættispróf í landbúnaði leysa frjálsa aðgöngu af hólmi, hefur skipulag landbúnaðar nálgazt fullkomnun. Prófin draga úr líkum á, að ungir menn með nýjar hugmyndir fari að raska ró gömlu embættismannanna. Síðar má svo loka stéttinni alveg.

Sérstakur yfirdýralæknir er hafður til að verja innflutningsbann, sem verndar embættiskerfið í landbúnaði. Bannið dregur úr óæskilegum verðsamanburði, sem gæti komið illu af stað. Enn mikilvægara er, að það tryggir ákveðin lágmarksumsvif í þessum ríkisgeira.

Ríkið kaupir framleiðsluna fyrir hönd skattgreiðenda og niðurgreiðir hana til neytenda og útlendinga eða gefur hana rottunum, allt til að halda festu og öryggi í hinum virðulega embættisrekstri, sem ýmsir telja, að sé sjálfur hornsteinn menningar okkar og þjóðernis.

Ekki er amalegt að hugsa til, að handhafar íslenzkrar menningar og þjóðernis hafi framvegis skólapróf í skattabókhaldi og efnahagslegum fræðum, svo að við getum treyst, að jafnan hafi þeir þjóðarhag að æðstu hugsjón, svo sem allir sannir embættismenn hafa.

Á tíma þyngdarauka landbúnaðar er embættispróf bænda einmitt þáttur í, að þjóðin enduröðlist sem fyrst gullöldina 1602­1786 og kaupi ekki ólögmæt snæri.

Jónas Kristjánsson

DV