Endalaus einokun

Greinar

Einokun og hringamyndun er ekki ný á Íslandi, þótt meira sé talað um hana en nokkru sinni fyrr. Alltaf eru það sömu, gömlu kolkrabbafyrirtækin, sem stjórna henni. Olíufélögin lækka sig, þegar Atlantsolía kemur inn á markaðinn og hækka sig strax aftur, þegar nýja félagið er búið með benzínið.

Þannig hefur það alltaf verið. Þegar lággjaldafélög koma í millilandaflug, lækkar gamla einokunin sig á þeim leiðum, en ekki öðrum. Þegar lággjaldafélögin gefast upp, hækkar einokunin sig upp í gamla okrið. Þannig var þetta í grænmeti og bílatryggingum, vöruflutningum og innanlandsflugi.

Ráðherrar helmingafélags kolkrabbans og smokkfisksins hafa aldrei sýnt neinar áhyggjur af einokun og okri, hringamyndun og samráðum í benzíni og grænmeti, vöruflutningum og tryggingum og á ýmsum öðrum mikilvægum sviðum. Þeir hafa áhyggjulaust látið heimska kjósendur borga brúsann.

Nú segjast ráðherrar hins vegar hafa feiknarlegar áhyggjur af upprennandi einokun og hringamyndun í atvinnulífinu almennt og sérstaklega í matvöruverzlun og fjölmiðlun. Þeir segja, að setja þurfi lög til að stemma stigu við illum öflum, sem hafa rutt sér til rúms framhjá kolkrabbanum.

Þetta eru ekki alvöru sinnaskipti, heldur byggjast þau á, að ráðherrar geta ekki dulið gremju sína út af hnignun kolkrabbans. Sérstaklega svíður þeim að hafa glatað fyrri yfirburðum í fréttamiðlun og misst tækifæri til að bæta sér það upp með því að eignast fjölmiðla, sem misstu fótanna.

Breytingin í fréttamiðlun er þó ekki meiri en svo, að kolkrabbinn stjórnar enn rúmlega þriðjungi hennar í landinu, bláskjá og mogga, skjá eitt og sögu. Opnunin nægir bara til að hindra kolkrabbann í að stjórna því, sem þjóðinni er sagt vera í fréttum. En sú breyting svíður og Davíð veinar.

Viðnám gegn einokun og hringamyndun er mikilvægt, þótt annarleg sjónarmið ráði sinnaskiptum valdamanna. Sérstaklega er brýnt að gera samskipti peningavalds og stjórnmála öllum almenningi gegnsæ. Til þess þarf lög um gegnsæjar fjárreiður stjórnmálaflokka, frambjóðenda og annarra pólitískra afla.

Hingað til hafa einokun og hringamyndun, okur og samráð dafnað í skjóli leyndarinnar, sem hvílir yfir fjárreiðum stjórnmálanna. Kolkrabbinn og smokkfiskurinn hafa rekið flokka eins og pólitísk útibú, sem gæta annarlegra hagsmuna. Þetta lagast ekki fyrr en spilin verða lögð á borðið.

Núverandi valdhafar hafa aldrei tekið í mál, að spilin verði lögð á borðið. Þeir meina ekkert með nýjum orðum sínum um einokun og hringamyndun. Þeir eru sjálfir versta afsprengi hennar. Þeir hafa alltaf varið hana, þegar á reyndi. Einokun og hringamyndun er sjálfur hornsteinn valdakerfis þeirra.

Þetta má fá staðfest með sólskinslögum, sem draga tengsli fyrirtækja, stofnana og stjórnmála fram í dagsljósið.

Jónas Kristjánsson

DV