Endir markaðshyggju

Greinar

Markaðshyggjan er komin á leiðarenda sem hugmyndafræði. Í málefnaumræðu erlendis, einkum í Bandaríkjunum, er í auknum mæli litið á hana sem tímabundið þrep í þróun lýðræðisríkja. Lítið fer fyrir verjendum hennar í umræðunni. Það er eins og þeir hafi misst móðinn.

Hagsmunir stórfyrirtækja og þjóðfélags fara ekki lengur að öllu leyti saman. Í auknum mæli lítur viðskiptaheimurinn á markaðsráðandi stöðu sem markmið. Samruni og uppkaup fyrirtækja eru orðin að faraldri, sem gerbreytir samspili markaðsins og þjóðfélagsins.

Samkeppni er hratt að breytast í fákeppni og fákeppni er hratt að breytast í fáokun og fáokun er hratt að breytast í einokun. Einhvers staðar á þessu ferli hættir markaðurinn að vinna með þjóðfélaginu með lækkuðu verðlagi og fer að vinna gegn því með hækkuðu verðlagi.

Við höfum búið við þetta hér á landi, þar sem samkeppni á matvörumarkaði lækkaði matvöruverð fram eftir síðasta áratug aldarinnar og var einn mikilvægasti þáttur bættra lífskjara. Síðan kom fáokun til sögunnar undir lok aldarinnar og fór að hækka verðlag að nýju.

Hér á landi er vegna fámennis þjóðarinnar löng reynsla af skaðlegum áhrifum fáokunar í benzíni, tryggingum, farþegaflugi og vöruflutningum á landi og á sjó. Hér í blaðinu hefur oft verið talað um þetta sem dæmi um, að lokamarkmið allrar samkeppni væri einokun.

Einkavæðing ríkiseinokunar hefur heima og erlendis opnað mönnum sýn á galla markaðshyggjunnar. Yfirleitt er slæm reynsla af einkavæðingunni. Við minnumst einkavæðingar einokunar í bifreiðaskoðun og Bretar minnast einkavæðingar einokunar járnbrauta.

Við munum bera skaða af fyrirhugaðri sameiningu Landsbankans og Búnaðarbankans, sem mun þrengja kosti venjulegra notenda bankaþjónustu. Við munum líka bera skaða af fyrirhugaðri einkavæðingu símaeinokunar, sem mun þrengja kosti venjulegra símnotenda.

Barátta bandarískra stjórnvalda gegn hugbúnaðareinokun Microsoft er sögulegt framhald af fyrri baráttu ríkisvaldsins gegn olíurisanum Standard Oil og bandaríska símafélaginu. Með mistæku handafli stjórnvalda og dómstóla er reynt að stýra einokunarferlinu til baka.

Hér á landi eru stjórnvöld nánast markvisst að framkalla ferli, sem bandarísk stjórnvöld eru að reyna að stöðva. Þetta misræmi stafar af, að íslenzk stjórnvöld eru enn hugfangin af töfrum markaðshyggjunnar, en bandarísk stjórnvöld eru orðin miklu raunsærri.

Fólk er að átta sig á málefnalegri hnignun markaðshyggjunnar í sumum vestrænum löndum, einkum í Bandaríkjunum. Menn hafa fengið óbeit á ýmsum stofnunum, sem taldar eru vígi markaðshyggjunnar, svo sem Heimsviðskiptastofnuninni, og láta verkin tala.

Fólk sér hnattvæðingu fáokunarfyrirtækja, sem sæta engu marktæku aðhaldi, af því að armur einstakra ríkja nær ekki til þeirra. Nú er svo komið, að óeirðir verða nánast hvar sem talsmenn hnattvæðingar koma saman á vegum fjölþjóðlegra sjóða og viðskiptastofnana.

Varanlegur brestur er orðinn milli markmiða þjóðfélagsins annars vegar og markmiða risafyrirtækja hins vegar við umsnúning markaðshyggjunnar yfir í fáokunarhyggju. Markaðurinn er að breytast úr aflvél lífskjarabóta yfir í einkavædda og verðbólgna einokun.

Vestræn þjóðfélög munu fyrr eða síðar bregðast við þessu með margefldri neytendavernd og stórtækari handaflsaðgerðum gegn fáokunarfyrirtækjum.

Jónas Kristjánsson

DV