Endurheimtum stéttafrið

Greinar

Hremmingar ríkisstjórnarinnar byrjuðu í alvöru í vinnudeilum vorsins. Hin vanhugsuðu bráðabirgðalög hennar voru tilviljanakenndur áfangi í þokugöngu, sem varð fyrst mögnuð í sífelldu vanmati hennar og raunar flestra annarra á þunganum í gremju láglaunafólks.

Það var verzlunar- og skrifstofufólk utan Reykjavíkursvæðisins, sem kom mest á óvart í vinnudeilunum. Hvað eftir annað kom í ljós, að það sætti sig ekki við niðurstöður, sem reyndir menn töldu vera í þolanlegu samræmi við hefðir og reynslu fyrri ára á þessu sviði.

Eftir á að hyggja eru á þessu gildar skýringar. Kjarni verzlunarstéttar þessa svæðis starfar hjá kaupfélögum og öðrum samvinnufélögum, sem hafa verið í fararbroddi hinnar auknu stéttaskiptingar í landinu á undanförnum árum. Þetta starfsfólk gerði uppreisn.

Láglaunafólk verzlunarmannafélaga landsbyggðarinnar taldi sig ekki eiga frumkvæði að rofi hefða. Það taldi sig vera í vörn gegn atvinnurekendum, sem hefðu rofið hefðbundin hlutföll í stéttakjörum þjóðarinnar. Það bar sig saman við nýráðinn Sambandsforstjóra.

Enginn vafi er á, að óvæntar upplýsingar um kjör dýrustu yfirmanna samvinnuhreyfingarinnar voru olía á eld óánægju láglaunafólks. Hin afbrigðilegu launakjör forstjóra sölufélags íslenzkra samvinnumanna í Bandaríkjunum voru borin saman við eigin smánarkjör.

Samvinnuhreyfingin er ekki ein um að hafa rofið hefðbundin hlutföll í kjörum starfsfólks, þótt hún hafi gengið einna lengst. Milljón krónur á mánuði þekkjast ekki í einkarekstri, en þar eru menn þó farnir að skríða í hálfa milljón, meðan þrælarnir hafa tæp 40 þúsund.

Samkvæmt nýrri úttekt Þjóðhagsstofnunar er tíundi hluti launþega með rúmlega 250 þúsund krónur á mánuði að meðaltali um þessar mundir. Þetta er tekjuyfirstétt þjóðarinnar, þau 10%, sem fá 27% kökunnar. Í rauninni er þetta furðulega fjölmennur hópur.

Í hinum endanum eru þeir, sem taka lágmarkslaunin, sem tókst með hörku í vor að hækka upp í 36.500 krónur, einn sjöunda af launum hátekjufólks. Úttekt Þjóðhagsstofnunar sýnir að vísu mun lægri tekjutölur á botninum, en það eru tekjur fólks í hlutastörfum.

Samkvæmt útreikningum Kjararannsóknanefndar hófst misgengi almenns kaupmáttar og kaupmáttar lágmarkslauna eftir samningana í árslok 1984. Í stað þess að jafna kjörin, juku þeir ójöfnuðinn fram á mitt ár 1985. Síðan varð hlé, sem stóð fram undir árslok 1986.

Misræmið magnaðist svo í alvöru í fyrra. Hefur ekki annar eins aðskilnaður tekjuþróunar hálauna- og láglaunafólks orðið í manna minnum. Verulegur hluti þjóðarinnar baðaði sig í góðærinu, meðan sá hluti hennar, sem verst var settur, mátti sæta skerðingu lífskjara.

Þetta misgengi hleypti illu blóði í kjarasamingana í vor. Láglaunafólkið setti hnefann í borðið. Niðurstaða upphlaupsins varð engin. Það þýðir ekki, að málið sé úr sögunni. Búast má við harðnandi stéttaátökum í landinu á næstu árum, ef misgengið verður ekki leiðrétt.

Slæm reynsla er af minnkun tekjubils í kjarasamningum. Launaskriðið hefur jafnan eyðilagt slíkar tilraunir og jafnvel breikkað bilið enn frekar. Hér í leiðaranum á laugardag var bent á kosti og galla annarrar leiðar, lagasetningar, svo sem tíðkast í Bandaríkjunum.

Þótt málið sé erfitt í framkvæmd, er nauðsynlegt, að þjóðin geri sér grein fyrir, að sæmilegur stéttafriður næst ekki nema með minnkun munar lífskjara í landinu.

Jónas Kristjánsson

DV