Endurkoma Krists

Greinar

Kristur er sagður koma aftur, þegar þrennt hefur gerzt: Í fyrsta lagi hefur Ísrael orðið til sem ríki. Í öðru lagi hefur það hertekið lönd Biblíunnar, Miðausturlönd. Í þriðja lagi hefur þriðja musterið verið reist á Musterishæðinni í Jerúsalem, þar sem nú standa helztu moskur Palestínumanna.

Sjötti hver Bandaríkjamaður trúir þessari kenningu og þriðji hver kjósandi flokks repúblikana, þar á meðal John Ashcroft dómsmálaráðherra og Tom DeLay þingflokksformaður. Í augum þessa fólks eru atburðirnir í Palestínu og Írak vegvísar að næsta heimssstríði og endanlegum sigri kristinnar trúar.

Í krafti þessara kenninga tveggja spámanna á nítjándu öld styðja margar ofsatrúarkirkjur ofbeldi Bandaríkjanna og Ísraels, reyna markvisst að koma af stað heimsstyrjöld og sjá And-krist í mönnum á borð við Jaiver Solana hjá Evrópusambandinu og Kofi Annan hjá Sameinuðu þjóðunum.

Við skiljum ekki svona firringu hér á landi og skiljum ekki heldur, hversu alvarlegar afleiðingar hún getur haft í heimsmálunum. Þriðjungur repúblikana trúir botnlausu rugli og mikið af hinum, þar á meðal forsetinn, styður aðrar ofsatrúarkirkjur, sem ganga ekki eins langt og þessar.

Við höldum, að stórborgir austur- og vesturstrandarinnar séu Bandaríkin, en þær eru það ekki. Völdin í landinu hafa færzt inn í landið, þar sem menn dá George W. Bush, ganga um með byssur, halda að Írak hafi staðið fyrir árásum á Bandaríkin og stunda samkomur ofsatrúarsafnaða á hverjum sunnudegi.

Engu máli skiptir, þótt út komi reglulega bækur innherja, er lýsa undarlegum forseta, sem les ekki einnar blaðsíðu greinargerðir embættismanna, tekur ekki mark á staðreyndum, sér allt í svart-hvítum myndum og er algerlega háður ráðgjöfum, sem koma úr svart-hvítum heimi ofsatrúarmanna.

Þótt allar uppljóstranir innherja og allar fréttir af gangi mála í heiminum hafi verið neikvæðar forsetanum undanfarnar vikur, er engan bilbug að finna á kjósendum hans. Hann hefur sem fyrr 45% fylgi á móti 45% fylgi demókratans John Kerry. Þessi hlutföll hafa haldizt í föstum skorðum vikum saman.

Hér á landi og víðast hvar í Evrópu utan Bretlands eru ofsatrúarmenn taldir vera sérvitringar, sem ekki séu nothæfir til stjórnmála. Ofsatrúarmenn á jaðri geðveikinnar eru hins vegar ekki aðeins viðurkenndir stjórnmálamenn í Bandaríkjunum, heldur sitja beinlínis við stjórnvölinn.

Vandamál Íslands er hið sama og vandamál alls mannkyns um þessar mundir, hvernig eigi að haga seglum eftir vindum, er blása frá heimsveldi, sem rambar um eins og dauðadrukkið sé.

Jónas Kristjánsson

DV