Endurreistur miðbær.

Greinar

Dönsku verkfræðingarnir, sem á sínum tíma skipulögðu gatnakerfið fyrir þáverandi meirihluta borgarstjórnar, eru nú að gera hið sama fyrir núverandi meirihluta og hafa lagt til, að Laugavegur verði að göngugöngu.

Þetta er hin bezta hugmynd, sérstaklega ef hún verður þáttur í víðara samhengi, þéttingu byggðar í Reykjavík, – án draumóra um byggingasvæði á Reykjavíkurflugvelli og á ýmsum auðum stöðum, þar sem betra væri að hafa gras.

Skynsamlegar hugmyndir um þéttingu byggðar hafa lent á villigötum hjá núverandi meirihluta, sem virðist ófáanlegur til að leiða hugsunina til rökréttrar niðurstöðu. Og minnihlutinn hefur að venju lítið til málsins að leggja.

Reykjavík ætti að þétta með því að endurreisa Laugavegssvæðið frá Grettisgötu niður að Skúlagötu. Þar eru ekki götubútar, er þarf að varðveita á staðnum. Og unnt er að flytja annað þau einstöku hús, sem menn kunna að sjá eftir.

Laugavegur yrði göngugata þessa miðbæjar, Skúlagata bílabrautin og Hverfisgata strætisvagnaleiðin. Frá Skúlagötu þyrfti að vera hægt að aka á nokkrum stöðum inn í bílageymslur undir þaki við gönguás Laugavegsins.

Mikilvægt er, að þeir, sem koma á bílum og í strætisvögnum, geti stigið út undir þaki og komizt í skjóli fyrir veðrum og vindi inn á Laugaveginn, sem auðvitað þarf að vera yfirbyggður með gleri eða gegnsæju plasti.

Á jarðhæð við Laugaveginn yrðu eins og nú margar litlar verzlanir. Og þar að auki inngangur til annarrar líflegrar starfsemi, svo sem veitingahúsa, kvikmyndahúsa, leikhúsa og danshúsa, er gætu verið í kjöllurum og bakhúsum.

Á næstu hæðum fyrir ofan yrðu skrifstofur í heldur meiri mæli en nú er. Efst kæmu svo íbúðir í háhýsum, nógu margar til að jafngilda atvinnutækifærum á svæðinu. Íbúafjöldi og atvinnutækifæri eiga að standast á í miðbænum.

Margir munu áfram búa í Breiðholti og sækja vinnu niður í bæ, meðan aðrir munu búa í þessum endurreista miðbæ og sækja vinnu upp í Breiðholt. En í heild draga íbúðir í miðbæ mjög úr umferð milli hverfa og spara umferðarmannvirki.

Til þess að þetta megi gerast verða yfirvöld borgarinnar að ná eða knýja fram samstöðu lóðaeigenda á Laugavegssvæðinu um heildarskipulag, er gjarna mætti hvíla á grundvelli alþjóðlegrar samkeppni með háum verðlaunum.

Lóðaeigendur þyrftu þá að fá fermetrarétt í byggingum svæðisins í hlutfalli við verð lóða þeirra, en án tillits til, hvernig þeirra eigin blettur nýtist, svo að smálóðasjónarmið bindi ekki hendur þeirra, sem svæðið skipuleggja.

Þessi rökrétta niðurstaða hugmynda um þéttingu byggðar í Reykjavík hefur ýmsa kosti. Einn hinn mikilvægasti er, að hún tekur tillit til veðurfars. Hún viðurkennir þá staðreynd, að hér er kaldi, blástur eða rigning meirihluta ársins.

Hugmyndir um blómlegt gangstéttalíf í göngugötu geta orðið að veruleika í sólríkum og veðursælum útlöndum. Hér verður hins vegar að búa til hin ytri skilyrði með því að byggja yfir göturnar og hita þær upp.

Annar kostur niðurstöðunnar er, að þetta er ekki nýr miðbær, heldur endurreisn miðbæjar, sem þegar er til með fjölbreyttu lífi, ótal verzlunum og annarri atvinnu. Þótt niðurstaðan sé róttæk, er hún um leið íhaldssöm, því að hún byggist á grunni þess, sem fyrir er.

Jónas Kristjánsson

DV