Jón Albert Sigurbjörnsson, formaður Landssambands hestamannafélaga:
Okkur vantar einfaldari boðleiðir, skynsamlegri forgangsröðun verkefna, aukna yfirsýn í heimi íslenzkra hestamanna og aukinn slagkraft þeirra. Ég hef talað um það í nokkur ár, að við þurfum að skipuleggja okkur að nýju.
Samtök og stofnanir hestamennskunnar eru máttvana og frek á vinnukraft áhugafólks. Sem dæmi um vanmátt okkar er, að fyrir nokkrum árum voru þrír starfsmenn hjá þessum samtökum, en eru núna tveir. Verkefnum hefur samt fjölgað á þessum tíma. Við þurfum að bæta þjónustuna, en höfum til þess þunglamalegt kerfi.
Hér er Landssamband hestamannafélaga með tvö dómarafélög innan sinna vébanda. Í sömu húsakynnum er Félag hrossabænda og Félag tamningamanna, sem hefur sérstöðu sem fagfélag með skilyrta félagsaðild. Svo eru til Átaksverkefni, Hestamiðstöð, Umboðsmaður, Landsmót ehf, Fagráð í hrossarækt og Hólaskóli.
Sumir þessara aðila hafa vel skilgreind verkefni, en aðrir miður. Enginn þessara aðila hefur yfirsýn yfir hestamennskuna í heild. Þar á ofan eru sumir þeirra í samkeppni um fjármagn af hálfu opinberra aðila og styrktaraðila í einkageiranum.
Þegar Landssambandið leitar til opinberra aðila eða einkaaðila um aðstoð við að koma á fót mikilvægum verkefnum, er því vinsamlega bent á alla þá fjármuni, sem renna með margvíslegum hætti til hestamennskunnar í landinu.
Ríkisvaldið leggur fram mikla peninga um þessar mundir, Á fimm árum fara 125 milljónir til Hestamiðstöðvar, 75 milljónir til Átaksverkefnis og 45 milljónir til Umboðsmanns auk 10 milljona til viðbótar sem eru fengar af styrktaraðilum, þeim sömu og hafa verið okkar aðal styrktaraðilar svo árum skiptir.
Hestamannafélögin voru aftur á móti með veltu upp á 127 milljónir árið 2001 og LH með 21 milljón króna veltu (tölur frá ÍSÍ). Þetta sýnir glöggt hversu mörg þau verkefni eru sem hvíla á landssambandinu.
Landssambandið, sem hefur 9000 félagsmenn, er aðeins með mann í stjórn eins ofantalinna verkefna. Áhrif þess eru því afar takmörkuð miðað við stærð, þótt miklir fjármunir séu í húfi fyrir hestamennskuna í landinu.
Landssambandið er miklu meira en þjónustu- og ráðgjafarstofnun fyrir hestamannafélögin í landinu. Það sér um landslið á heimsleikum, skipuleggur æskulýðsstarf og berst fyrir reiðvegamálum, svo að dæmi séu nefnd.
Mikill tími fer hjá Landssambandinu og landsþingum þess í að halda utan um keppnisreglur og gera á þeim breytingar. Raunar er kominn tími til að taka upp alþjóðlegar FIPO-reglur og gefa sér í staðinn meiri tíma á landsþingum til að takast á um forgangsröðun verkefna.
Ég tel tímabært að sameina landssambandið Félagi hrossabænda í ein landssamtök hestamanna. Þessi samtök verði síðan deildaskipt eins og hliðstæð samtök í öðrum löndum íslenzka hestsins. Þetta verði sjálfstæðar deildir með sérstökum stjórnum, sem séu kjörnar á landsþingi. Formaður hverrar stjórnar sitji svo í stjórn sjálfs landssambandsins.
Ég sé fyrir mér ræktunardeild, frístundadeild, keppnisdeild, æskulýðsdeild, menntadeild og hugsanlega fleiri deildir. Þá mættu vera til nefndir eins og t.d. mannvirkjanefnd sem myndi heyra beint undir stjórn. Í keppnisdeildinni má til dæmis fara yfir og afgreiða allar þær tillögur, sem uppi eru um keppnisreglur, svo að landsþing þurfi ekki að ræða þær, heldur staðfesti þær bara eða synji þeim.
Ég veit ekki um nema tvær röksemdir gegn sameiningu Landssambands hestamannafélaga og Félags hrossabænda. Það er kenningin um, að atvinnumenn og áhugamenn eigi ekki samleið í einu félagi, þ.e. hagsmunir málsaðila séu ekki nógu líkir og að Félag hrossabænda sé búgreinafélag. En það væri hægt að leysa með því að Ræktunardeildin ætti aðild að Bændasamtökum Íslands.
Landssambandið er alltaf að vinna fyrir atvinnumenn jafnt sem áhugafólk. Það hefur landsliðsnefnd, er sér fjárhagslega um landslið, sem skipað er atvinnumönnum. Það sér um unglingastarf, sem er óbeint í þágu atvinnumanna. Það fæst við reiðvegamál, sem er hagsmunamál atvinnumanna. Það ver miklum tíma í fágun keppnisreglna að tilhlutan atvinnumanna. Þannig má lengi nefna.
Átta eða níu af hverjum 10 félögum í Félagi hrossabænda og Félagi tamningamanna eru líka félagar í landssambandinu. Tveir af hverjum þremur, sem eiga hross á kynbótasýningum, eru ekki félagar í Félagi hrossabænda, heldur úr hópi svokallaðra áhugamanna. Stóru LH-félögin á Faxaflóasvæðinu hafa ræktunardeildir innan sinna vébanda.
Ég held, að hagsmunir félagsmanna í landssambandinu og Félagi hrossabænda fari saman. Það vantar einn stóran aðila, sem komi fram gagnvart stjórnvöldum sem fulltrúi greinarinnar í heild, svo að hafa verði samráð við hann, þegar fjármunum er skipt eða úthlutað.
Félagsmenn Félags hrossabænda eru um 1000, en félagsmenn Landssambands hestamannafélaga eru 9000. Það gæti því verið styrkur fyrir þá fyrrnefndu að hafa með sér kraft hinna síðarnefndu enda snýst þessi hugmyndafræði mín um að sameina kraftana og einfalda ferlið.
LH þarf líka að hreinsa til hjá sjálfu sér. Við munum ræða það á formannafundi í nóvember. Mín hugmynd er að deildaskipta sambandinu eins og áður segir og veita deildunum mikið sjálfstæði og afgreiða fleiri mál á því stigi.
Með því að formenn deildanna sitji í stjórn sambandsins næst aukin yfirsýn yfir þarfir hestamennskunnar í heild. Þetta er það fyrirkomulag, sem víðast er notað erlendis og gefur góða raun.
Einnig tel ég heppilegt, að hestamannafélögin í landinu stefni að aukinni sameiningu. Samgöngur og skipan sveitarfélaga hafa breytzt síðan félögin voru stofnuð. Þannig eru t.d. þrjú hestamannafélög í sveitarfélaginu Skagafirði og tvo í sveitarfélaginu Borgarbyggð. Sameinuð mundu slík félög hafa meira afl til góðra verka.
Í stórum dráttum fjalla hugmyndir mínar um, að LH verði endurskipulagt og með sameiginlegri starfsemi leggi það síðan áherzlu á að verða umsagnaraðili um stofnun og fjármagnsnotkun stofnana á borð við Átakið, Hestamiðstöðina og Umboðsmanninn. Þannig næst einföldun, yfirsýn, forgagnsröðun og slagkraftur.
Mismunandi verkefni
Kristinn Guðnason, formaður Félags hrossabænda:
Félag hrossabænda og Landssamband hestamannafélaga eiga ekki samleið að öllu leyti. Verkefni félaganna eru að mörgu leyti mismunandi. Fyrrnefnda félagið er atvinnumannafélag og á að mörgu leyti samleið með Félagi tamningamanna, sem einnig er atvinnumannafélag.
Landssambandið er hins vegar áhugamannasamtök að upplagi, þótt það hafi tekið að sér að sinna málum, sem koma atvinnumönnum að gagni. Það eru einkum mál, sem varða sýningar og keppni, en síður mál, sem varða ræktun.
Landþing LH hefur sjálft rætt deildaskiptingu innan sambandsins og hafnað henni. Auðvitað má taka umræðuna upp aftur og við erum alltaf tilbúnir hjá Félagi hrossabænda að ræða málin. En við teljum samstarf betra en samruna.
Ekki má gleyma, að Félag hrossabænda er í Bændasamtökunum. Í tengslum við það samstarf fá sýnendur kynbótahrossa margvíslega fyrirgreiðslu, sem aðeins greiðist fyrir að hluta í sýningargjöldum. Hrossabændur vilja ekki skera á aðild sína að almennum samtökum bænda.
Bændasamtökin hafa sýnt gott frumkvæði í erlendum samskiptum, sem hafa komið hrossabændum að gagni. Fyrir atbeina Bændasamtakanna hafa Félag hrossabænda og félagsmenn þess náð miklum og góðum tengslum við erlenda viðskiptavini.
Í tízku eru slagorð á borð við sameiningu. Menn virðast telja, að hún framleiði nýja peninga, en svo er ekki. Það gildir jafnt um Félag hrossabænda og Landssamband hestamannafélaga, að þau eru fjárhagslega veikburða. Reynslan sýnir, að sameining tveggja eða fleiri veikburða aðila myndar ekki einn sterkan aðila.
Við í Félagi hrossabænda höfum ekki staðið okkur lakar en félagar okkar í LH. Til dæmis höfum við stuðlað að traustu ferli kynbótadóma, sem hefur verið tekið upp í öðrum löndum. Við viljum ekki verða deild í breyttu LH og teljum vera tímasóun að verja miklum tíma í að ræða það.
Skilja betur
milli atvinnu
og frístunda
Ólafur Hafsteinn Einarsson, formaður Félags tamningamanna:
Mér finnst ekki skynsamlegt að eyða miklum tíma í að ræða sameiningu Landssambands hestamannafélaga og Félags hrossabænda meðan forustumenn annars félagsins hafa ekki áhuga. Þetta mál hefur þegar verið rætt nógu mikið og LH getur ekki innbyrt önnur félög gegn vilja þeirra.
Miklu fremur er nauðsynlegt að skilja betur milli áhugamennsku annars vegar og atvinnumennsku hins vegar. Landssambandið er samnefnari almennings íþróttarinnar hestamennska. Hagsmunagæsla til handa atvinumennskunni á betur heima hjá Félagi hrosssabænda og Félagi tamningamanna. Að sjálfsögðu skarast þetta starf stundum og þá eiga félagasamtök hestamennskunnar að hafa samstarf.
Atvinnumennska í hestageiranum felst að mestu leiti í ræktun, tamningum, kennslu, ferðaþjónustu, verzlun og útflutningi. Skynsamlegt er, að þessir aðilar reyni að ná saman um hagsmunamál atvinnumennsku í hestageiranum. Þau eru sumpart hin sömu og hagsmunamál áhugamanna, en sumpart eru þau önnur.
Í þjóðfélagi reglugerða og skipulags er mikilvægt, að atvinnumennskan geti komið fram sem ein heild til að bæta starfsskilyrði greinarinnar og stuðla þannig að bættum hag þeirra sem hafa hestamennskuna að atvinnu.
Ég tel að Félag hrossabænda og Félag tamningamanna muni auka samstarf sitt og það verði skarpari skil milli starfa þeirra og starfa Landssambands hestamannafélaga í framtíðinni. Það að hestamennskan skuli nú eiga nám sem er hluti af íslensku menntakerfi mun áreiðanlega flýta fyrir þessari þróun. Þeir sem fara um þetta nám verða nú félagsmenn í Félagi tamningamanna og er félagið þannig þeirra afl til að hafa áhrif í samfélagi hestamennskunnar. Hrossabóndi framtíðarinnar er líklega sá sem hefur farið þennan menntaveg og aukið samstarf þessara félaga tel ég skref í rétta átt.
Jónas Kristjánsson skráði
Eiðfaxi 1.tbl. 2004