Enga innrætingu!

Greinar

Ólafur Hansson, menntaskólakennari og prófessor, samdi í mannkynssögu stífustu kennslubækur, sem um getur. Þær voru sneisafullar af nöfnum og ártölum, eins konar handbækur fyrir raunverulega áhugamenn um mannkynssögu.

Kennsla Ólafs var allt önnur, þótt hann styddist við bækurnar. Í leiftrandi fyrirlestrum hans voru bækurnar bara þjónar, ekki húsbændur. Hann vildi, að nemendur læsu nöfnin og ártölin, án þess endilega að leggja þau á minnið.

Í prófum skiptu ártöl Ólaf litlu. Spyrði hann um líflát Jóns biskups Arasonar, þótti honum jafnvel vænna um svarið: Um miðja sextándu öld, heldur en svarið: 1550, ef hann taldi fyrra svarið sýna meiri skilning á sögulegu samhengi.

Dæmið um Ólaf Hansson sýnir, að deilur með og móti nöfnum og ártölum í sögu Íslands geta skotið yfir markið í báðar áttir. Hinar grunnhörðu staðreyndir nafna og ártala eru mikilvægar, ef þær eru ekki gerðar að alfa og ómega.

Dæmið um Ólaf sýnir líka, að það er kennarinn sjálfur, sem skiptir mestu, en ekki hinn ytri umbúnaður í kennslugögnum. En því miður hlýtur ætíð að vera skortur á slíkum hæfileikamönnum, sem blása lífi í dauð ártöl.

Í framhjáhlaupi má harma, að Ólafur skyldi ekki hafa verið uppi á öld myndbanda og tölva. Þá hefði verið hægt að margfalda kennsluhætti hans fyrir allt skólakerfið, fyrirlestrana á myndböndum og spurningarnar í tölvum, sem vænta svars.

En sjálfur hefði Ólafur harmað mest, að nafn hans skuli nú vera notað til framdráttar þingsályktunartillögu Eiðs Guðnasonar og fleiri um, að í sögu Íslands í skólum eigi hin hreina sagnfræði að víkja fyrir innrætingu.

Eiður, sem skilur Ólaf eins og andskotinn biblíuna, vill, að þessi kennsla miðist við, að nemendur öðlist “trú á landið og vilja til að varðveita það menningarsamfélag, sem hér hefur þróazt í ellefu aldir”.

Sögukennsla sem innræting hentar án efa forræðissinnum á borð við Tsjernenko, Khomeini og d’Aubuisson, alveg eins og hún hentaði Mussolini, Hitler og Stalín. En hún á ekki heima í vestrænu þjóðfélagi, sem hvílir á jákvæðri vísindahyggju.

Sagnfræði Jónasar frá Hriflu leiftraði af hugsjónum, sem kunna að hafa hentað kynslóð aldamótanna í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. Þeirri fullyrðingu verður þó aldrei svarað, því að ekkert er til samanburðar.

Sagnfræði hans í stjórnmálasögu síðari hluta 19. aldar og upphafs hinnar 20. verður aldrei endurtekin, meðal annars vegna útreiðarinnar, sem hún hefur fengið í bókum Þorsteins Thorarensen, svo að varla stendur lengur steinn yfir steini.

Það er þjóðfélagið sjálft, allt umhverfi unga fólksins og sjálft lýðræðisformið, sem á að leiða til föðurlandsástar. Hún verður ekki kennd í skólum. Hún kemur þvert á móti af sjálfu sér, ef þjóðfélagið er í stórum dráttum í lagi.

Ekki er heldur verkefni skólanna að kenna nemendum frið í samræmi við þingsályktunartillögu Guðrúnar Agnarsdóttur og fleiri þingmanna. Gegn þeirri innrætingu gilda sömu rök og gegn innrætingu Eiðs Guðnasonar.

Vonandi ber alþingi gæfu til að fella allar hugmyndir um að saurga hina hreinu og tæru sagnfræði Ólafs Hanssonar, hinnar gildislausu vísindahyggju, sem ein megnar að bægja ofsatrú og fordómum frá veiklunduðu mannkyni.

Jónas Kristjánsson.

DV