“Æskulýðsfylking Alþýðubandalagsins og Samband ungra sjálfstæðismanna eru ósammála um margt. En um eitt erum við þó sammála: Ríkisstjórnin verður að fara frá.” Þannig hljóðaði auglýsing frá Æskulýðsfylkingunni, sem birtist hér í blaðinu á miðvikudaginn.
Auglýsingin sýnir, hvert kosningamálið mundi verða, ef Samband ungra sjálfstæðismanna fengi haustkosningavilja sínum framgengt. Stjórnarandstaðan mundi hamra á, að ríkisstjórnin hefði hlaupizt frá vandanum, sem hefði hrannazt upp í höndum hennar.
Eftir nokkurra daga spennu út af hugsanlegum haustkosningum eru stjórnmálamenn farnir að átta sig á, að málið nær ekki fram að ganga. Kosningar verða ekki í haust, einfaldlega af því að ríkisstjórnin mun ekki geta skýrt fyrir fólki, að þeirra sé þörf.
Baráttulið haustkosninga rökstuddi þær með því að segja, að ríkisstjórnin mundi eiga erfitt með að ná saman nothæfu fjárlagafrumvarpi og að hindra verðbólguniðurstöðu í næstu kjarasamningum. Þetta túlkar fólk sem tækifærissinnað sjónarmið baráttuliðsins.
Ef ríkisstjórnin féllist á sjónarmið haustkosningasinna, mundi fólk túlka það svo, að hún þyrði ekki að sýna þjóðinni niðurskorið fjárlagafrumvarp og þyrði ekki að heyja kosningabaráttu í kjölfar erfiðra kjarasamninga. Þetta yrði henni að álitshnekki.
Til viðbótar við þennan stjórnarvanda mundi svo bætast ásteytingarsteinninn, sem stjórnarflokkarnir yrðu að uppgötva, svo að þeir gætu haldið því fram, að þeir ættu ekki lengur að vinna saman. Ágreiningurinn mundi skaða stöðu beggja stjórnarflokkanna í haust.
Augljóst er af tóni framsóknarmanna, að þeir eru andvígir haustkosningum. Þeir segja, að krafa Sambands ungra sjálfstæðismanna sé vantraust á Þorstein Pálsson, af því að haustkosningar séu yfirlýsing um, að hann geti ekki komið saman fjárlagafrumvarpi.
Páll Pétursson, formaður þingflokks framsóknarmanna, segir, að það væru tafllok fyrir Þorstein sem stjórnmálaforingja, ef honum tækist ekki að koma saman skynsamlegu fjárlagafrumvarpi. Páll segir haustkosningar vera of dýra lausn á vandamálum Þorsteins.
Fólk þarf ekki að vera efnislega sammála áróðri af þessum toga og toga Æskulýðsfylkingarinnar til að sjá, að hann mun hafa töluverð áhrif á kjósendur í haustkosningum. Þess vegna hafa tvær grímur runnið á sjálfstæðismenn eins og framsóknarmenn áður.
Hugmyndin um haustkosningar spillir fyrir stjórnarflokkunum, þótt hún verði ekki að veruleika. Fólk hefur komizt að raun um, að ástand mikilvægustu mála er ekki eins gott og ráðherrarnir hafa viljað vera láta. Fólk telur, að haustkosningasinnar hafi séð þetta.
Að baki vinnufriðar og hægari gangs verðbólgunnar leynast margvísleg vandræði, ekki aðeins hættan á verðbólguhvetjandi fjárlögum og kjarasamningum, heldur einnig verðbólguhvetjandi gengislækkun, sem fer að virðast óumflýjanleg vegna frystihúsanna.
Framtak Sambands ungra sjálfstæðismanna hefur þannig spillt fyrir ráðherrum flokksins og flokknum í heild. Fyrir það mun sambandið fá skömm í hattinn. En um leið hefur það stuðlað að auknu raunsæi fólks í skoðunum þess á stöðu verðbólgu og ríkisfjármála.
Þess verður nú krafizt, að ríkisstjórnin leggi til atlögu við vanda næsta vetrar. Umræður um haustkosningar munu jafnframt fá hægt og sanngjarnt andlát.
Jónas Kristjánsson
DV