Engin er rós án þyrna

Greinar

Í flestum tilvikum gagnast prófkjör flokkunum, sem standa að þeim, svo sem sést af dæmum síðustu tveggja helga. Ef barátta milli einstaklinga verður ekki neikvæð og niðurstaðan ekki óþægileg frá svæða- eða kynjasjónarmiðum, er betur af stað farið en heima setið.

Sagan kennir okkur að vísu, að ekki er unnt að setja samasemmerki milli niðurstöðu í prófkjöri og stuðnings í kosningum. Nokkur dæmi eru um það, til dæmis hjá Alþýðuflokknum, að fleiri hafa tekið þátt í prófkjöri en síðan hafa stutt flokkinn í kosningunum á eftir.

Þetta stafar af, að flokksleysingjar og allra flokka kvikindi taka óspart þátt í opnum prófkjörum eins og þau tíðkast flest og meira að segja líka í lokuðum prófkjörum eins og hjá Framsóknarflokknum. Menn ganga í flokka eftir þörfum eins og að skipta um jakka.

Prófkjör vekja athygli. Þau sýna líf og fjör. Frambjóðendur fá tækifæri til að beina kastljósinu að sér persónulega fremur en að sameiginlegum málefnum framboðslistans. Persónur höfða meira en málefni til fólks. Með prófkjörum verður pólitíkin persónulegri.

Þeir, sem sigra í prófkjöri, fá forskot á athygli, sem kemur framboðslista þeirra að gagni í sjálfri kosningabaráttunni. Samtök jafnaðarmanna hafa eflt ímynd helztu frambjóðenda sinna í Reykjavík og á Reykjanesi og snúið óþægu almenningsáliti sér í hag.

Af Suðurlandi er Árni Johnsen gott dæmi. Sumir hafa skemmt sér við að gera grín að honum. Eftir mikinn sigur í risavöxnu prófkjöri er ekki lengur hægt að líta á hann sem léttadreng. Hann er orðinn að þungavigtarmanni með öflugt landshlutafylgi að baki sér.

Framsóknarflokkurinn lenti í minni háttar erfiðleikum í prófkjörinu á Norðurlandi vestra, þegar Vestur-Húnvetningar náðu ekki manni á blað. Þá eiga konur erfitt uppdráttar í prófkjörum þess flokks og Sjálfstæðisflokksins. Annars hafa prófkjör gengið vel.

Það skaðar Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík að etja kappi við lista Framsóknarflokksins og Samtaka jafnaðarmanna, sem byggðir eru upp af prófkjöri. Kosningavélin er lakar smurð, stemningin minni og frambjóðendur ópersónulegri en hjá keppinautunum.

Í lofræðu um prófkjör má ekki líta fram hjá miklu og vaxandi vandamáli kostnaðar. Frambjóðendur eru úr eigin vasa, vina og kunningja að leggja út milljón krónur á mann eða meira til að ná sér í vinnu, sem gefur ekki af sér nema þrjár-fjórar milljónir á ári í tekjur.

Samtök jafnaðarmanna á Reykjanesi reyndu að halda kostnaði í hófi með hömlum á auglýsingar. Þau gáfu líka út sameiginlegan bækling fyrir alla. Samt varð baráttan einstaklingunum dýr sem annars staðar. Fleiri en einn hafa vafalítið farið yfir eina milljón í tilkostnað.

Vel heppnuð prófkjör leiða til fjölgunar prófkjöra í framtíðinni og enn meiri útgjalda frambjóðenda sjálfra. Kostnaðarvandamálið þarf að taka fastari tökum, áður en það fer gersamlega úr böndum í spilltum sníkjuherferðum, svo sem dæmin sýna frá Bandaríkjunum.

Þeir vita bezt um þetta, sem hafa aflað sér þingsætis í erfiðum prófkjörum. Þeir ættu að ræða saman þverpólitískt um vandamálið og kanna, hvort ekki er hægt að hamla betur gegn kostnaði í framtíðinni og koma niðurstöðum sínum á framfæri við flokkana.

Engin er rós án þyrna. Að öllu samanlögðu eru prófkjör ágæt og lífleg aðferð til að auka pólitískan áhuga, dreifa valdi til fólks og efla lýðræði í landinu.

Jónas Kristjánsson

DV