Engin hæfni afgangs

Greinar

Vonarstjarna Sjálfstæðisflokksins er hætt í pólitík. Hún fór í staðinn að vinna í sjoppu, þar sem völd eru meiri en í póltík og peningar fjórum eða fimm sinnum meiri en í pólitík. Bæjarstjórinn í Garðabæ verður forstjóri Byko og við verðum áfram að þola Davíð, Geir Haarde og Björn.

Þetta er vond þróun. Við höfum þegar meira en nóg af hæfu fólki í viðskiptum og kaupsýslu. Okkur vantar hins vegar hæft fólk í pólitík, þar sem hver auminginn á fætur öðrum veldur þjóðfélaginu miklu tjóni og þar sem Alþingi er eins konar leikhús fáránleikans, óhæfra þingmanna með hálstau.

Hér að neðan er fjallað um nokkur afrek ofbeldishneigðra ráðherra okkar, þar sem þeir ráðskast með ríkið eins og þeir eigi það prívat og persónulega, hefnast á hugsandi embættismönnum með því að leggja þá niður, leggja stofnanir þeirra niður, flytja þær til Akureyrar, svelta þær um fé.

Ráðherrarnir hafa misst stjórn á þjóðfélaginu í hendur einkafyrirtækja. Sárindi þeirra eru mikil og komu bezt í ljós í fjölmiðlamálinu í fyrra, þegar þeir gátu ekki stýrt þróun fjölmiðlunar í landinu. Í staðinn hamast þeir á Ríkisútvarpinu og gamna sér við að komast í Öryggisráðið.

Auðvitað skiptir okkur máli að hafa góða forstjóra í Byko og Húsasmiðjunni, svo og öðrum stórfyrirtækjum landsins. En við þurfum enn frekar að hafa ráðherra, sem lyfta þjóðinni, en sparka ekki í hana. Við þurfum ráðherra, sem skipt er um á fjögurra ára fresti, svo að inniloftið sé hreinsað út.

Lýðræði hefur svo sem ekki merkilegan tilgang annan en að vera aðferð til að skipta um landsfeður á reglubundinn hátt. Meðan kjósendur láta undir höfuð leggjast að sinna því hlutverki sínu í lýðræðinu að skipta um valdhafa, sitjum við uppi með fúlan Davíð, fúlan Halldór, fúlan Geir, fúlan Björn.

Að frágengnum kjósendum fólst helzta von okkar í útskiptum innan stjórnmálaflokkanna, að lykilmenn flokkanna áttuðu sig á, að nýtt blóð þurfi þar að koma til skjalanna. Ásdís Halla Bragadóttir hefur sýnt það með stjórn sinni á Garðabæ, að hún var líkleg til að lofta út á æðstu stöðum í landsmálum.

Nú er sú von úti næstu árin. Við hin skulum nota tækifærið til að minna okkur á, að ekki gengur lengur, að ekkert sé afgangs af hæfileikum á Íslandi til að sinna pólitíkinni.

Jónas Kristjánsson

DV