Sá tími er löngu liðinn, að álbræðslan í Straumsvík rækti góða sambúð við sitt fólk. Fyrst þótti gott að vinna þar, ekki lengur. Nú vill hún reka starfsfólk og ráða verktaka á lægri launum, væntanlega úr þriðja heiminum. Sú er krafa þeirra, sem nú eiga bræðsluna, Rio Tinto Alcan. Um allan heim er það markmið risafyrirtækja að brjóta upp stéttarfélög. Komast í aðstöðu til að láta fátæka við sultarmörk undirbjóða í fasta vinnu. Fátt veldur meiri misskiptingu auðs en sveigjanlegt vinnuafl í kapphlaupi niður á botn. Í verkahring ríkisvaldsins er að banna slíka fúlmennsku með lögum og að vernda frelsi samtaka starfsfólks.