Enginn auður án lýðræðis

Greinar

Hremmingar fjármála Austur-Asíu hafa ekki snert Indland og munu ekki gera það í náinni framtíð. Indland er vestrænt lýðræðisríki, sem er búið að losa sig við ýmis vandamál, sem valdshyggjumenn nágrannalanda þess í austri hafa reynt að koma sér hjá að leysa.

Þjóðhagsmál Indlands eru gamaldags útgáfa af vestrænum þjóðhagsmálum. Efnahagur þess færi á flug, ef landið losnaði við ríkisafskiptastefnu Kongress-flokksins og sjálfsþurftarstefnu núverandi valdhafa þjóðernissinna. Að öðru leyti er Indland í góðum málum.

Þegar austur fyrir Indland kemur, taka við hin svonefndu asísku gildi, sem ráðamenn margra landa hafa teflt fram gegn vestrænum gildum. Til skamms tíma þóttu asísku gildin afar lærdómsrík, en nú talar enginn um, að Vesturlönd geti nokkuð lært af þeim.

Kreppa ríður húsum Austur-Asíu um þessar mundir. Verst eru leikin Indónesía, Suður-Kórea og Malasía, en einnig hriktir í stoðum Japans, Taívans, Filippseyja, Singapúrs, Hong Kong og Kína. Verðgildi japanska jensins hefur hríðlækkað og mun enn lækka.

Þessi ríki hafa yfirleitt búið til óþarflega mikla framleiðslugetu í iðnaði og þjónustu með verndarstefnu í innflutningi samfara sóknarstefnu í útflutningi, rétt eins og gerzt hefur í íslenzkum landbúnaði. Þau hafa byggt upp óráðsíubanka, sem minna á Landsbankann.

Um tíma héldu bjartsýnismenn, að Japanir væru nógu sterkir efnahagslega til að standast hremmingarnar og fjármagna viðreisn nágrannaríkjanna. Reynslan sýnir hins vegar, að þeir ráða ekki við eigin vandamál og telja sig ekki aflögufæra gagnvart nágrannaríkjunum.

Um tíma héldu bjartsýnismenn, að Kína mundi sleppa við gengislækkun. Nú er bara spurt, hvenær kínverska júanið lækki í verði, en ekki hvort svo verði. Gengislækkunin mun framkalla frekari hraðaaukningu Austur-Asíu á leiðinni niður eftir kreppugorminum.

Rætur vandans eru hin austrænu gildi, sem framan af var einkum haldið fram af Lee Kuan Yew, valdhafanum í Singapúr, og í seinni tíð meira af Tung Chee, hinum nýja lepp Kínastjórnar í Hong Kong. Undirleik annast ráðamenn í Malasíu. Að baki hefur Kínastjórn glott.

Asísku gildin eru sögð felast í áherzlu á fjölskylduna, fremur en einstaklinginn, virðingu fyrir hinum eldri, þar á meðal valdhöfum, einnig áherzlu á menntun fremur en framtak, trú á röð og reglu, notkun samráðs í stað samkeppni, og meiri áherzlu á skyldur en réttindi.

Gamlir valdhafar þessa heimshluta, með Lee Kuan Yew í broddi fylkingar, hafa meira að segja gabbað gamla þjóðhöfðingja á Vesturlöndum til að flytja tillögu um, að til hliðar við mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna verði sett yfirlýsing um skyldur manna.

Allt er rotið að baki hugmyndafræðinnar um hin austrænu gildi. Þar þrífst spilling og efnahagslegt gæludýrahald í skjóli virðingarinnar fyrir hinum eldri, trúarinnar á röð og reglu og notkun samráðs í stað samkeppni. Þetta hefur tröllriðið asísku bönkunum.

Nú eru lönd svonefndra asískra gilda rétt að byrja að súpa seyðið af kenningakerfinu. Gjaldmiðlarnir hríðfalla og verksmiðjum er lokað. Atvinnuleysingjar hrekjast út á gaddinn og finna þá ekki föðurlegu umhyggjuna, sem þeir höfðu vænzt í skjóli hinna asísku gilda.

Hin vestrænu gildi eru nefnilega ekki staðbundin við vestrið. Án vestræns lýðræðis geta þjóðir ekki orðið ríkar til lengdar. Ekki heldur þjóðir Austur-Asíu.

Jónas Kristjánsson

DV