Enginn er jafnari en annar

Greinar

Niðurstaða Hæstaréttar er ekki óskýr. Hann bendir einfaldlega á, að stjórnarskráin segi, að allir skuli vera jafnir fyrir lögunum. Það stríði gegn stjórnarskránni að setja og nota lög, þar sem sumir eru jafnari en aðrir. Þess vegna sé ólöglegt að gefa sægreifum kvótann.

Niðurstaða Hæstaréttar veldur engum vandræðum í þjóðfélaginu. Þeim hafa hins vegar valdið pólitískir umboðsmenn sérhagsmuna, sem hafa komið á fót sérstökum forréttindum nokkurra fyrirtækja. Hæstiréttur er bara að benda á, að þessum ólögum verði að eyða.

Niðurstaða Hæstaréttar veldur engri réttaróvissu. Þvert á móti skýrir hún það, sem áður virtist fela í sér þverstæður. Nú hafa héraðsdómarar skýra og eindregna forskrift til að styðjast við, þegar þeir taka við flóði mála, þar sem menn endurheimta jafnræðisrétt sinn.

Ekkert er flókið við lagfæringuna. Einfalt er að breyta lögum um stjórn fiskveiða í það horf, að þau samræmist stjórnarskránni. Það gerist bezt með því að bjóða kvótann út eða með því að koma á veiðigjaldi, sem endurspegli markaðslögmál framboðs og eftirspurnar.

Svo vel vill til, að ríkið hefur sjálft fyrir hönd þjóðarinnar framleitt núgildi auðlindarinnar með því að takmarka veiðar í fiskistofna, sem áður voru að hruni komnir fyrir tilverknað sægreifa. Ríkið eitt getur gert auðlindina sjálfbæra og gerir það fyrir hönd allra.

Til skamms tíma studdu margir gjafakvótann, af því að þeir töldu hann halda atvinnu heima í héraði. Þeir hafa hins vegar séð, að gjafakvótinn gengur kaupum og sölum milli landshluta og er fullfær um að leggja byggðir í eyði án nokkurs tilverknaðar Hæstaréttar.

Ríkisstjórnin er nú að finna lögmenn til að snúa út úr dómi Hæstaréttar og finna leiðir til að komast hjá því að framkvæma efnisatriði hans. Svo miklir sérhagsmunir eru í húfi, að ríkisstjórnin getur ekki sætt sig við þá hugsun, að jafnrétti borgaranna víki þeim til hliðar.

Við höfum strax séð tóninn. Það er nóg að breyta fimmtu greininni, segir sjávarútvegsráðherra. Þetta voru bara fimm dómarar, sem sýnir, að Hæstiréttur tók málið ekki alvarlega, segir forsætisráðherra. Hvað hefði hann sagt, ef einhver dómarinn hefði skilað séráliti?

Reiðilestur ráðherra segir meira um þá sjálfa en um Hæstarétt, sem komst að svo eindreginni niðurstöðu, að enginn dómari skilaði séráliti. Hæstiréttur telur nefnilega tvímælalaust, að allir skuli vera jafnir fyrir lögunum og að gæludýr séu ekki jafnari en önnur dýr.

Við sjáum fyrir, að ráðherrarnir geti grafið upp nokkra þekkta lögmenn til að úrskurða, að dómi Hæstaréttar megi fullnægja með orðalagsbreytingum einum og óbreyttum gjafakvóta. Þetta mun valda miklum vandræðum, því að þá hefjast málaferli fyrir alvöru.

Enginn friður verður fyrr en pólitískir umboðsmenn sérhagsmuna missa annaðhvort sín pólitísku völd eða gefast upp fyrir dómstólaþvargi. Vígstöðvarnar verða tvennar í senn, annars vegar í væntanlegum alþingiskosningum og hins vegar í dómsölum landsins.

Eina leiðin fyrir pólitísku umboðsmennina til að verja ójafnræðið er að fá svo mikið fylgi í næstu kosningum, að þeir hafi atkvæðamagn til að breyta stjórnarskránni á þann hátt, að leyfilegt sé að hygla sægreifum og öðrum gæludýrum, sem vilja hafa sérleyfi og einkaleyfi.

Þar með hafa skapazt aðstæður til að fram fari pólitísk orrusta um, hvort hér skuli vera vestrænt þjóðfélag eða þjóðfélag, þar sem gæludýr séu jafnari en önnur dýr.

Jónas Kristjánsson

DV