Nýjasta skoðanakönnun Dagblaðsins um fylgi forsetaframbjóðenda bendir til, að enginn sé öruggur um sigur og að enginn sé vonlaus um sigur. Bilið milli forsetaefna hefur minnkað nokkuð og margir kjósendur hafa ekki ákveðið sig.
Að óreyndu hefði mátt búast við, að framboðsþættir útvarps og einkum sjónvarps um síðustu helgi mundu ráða úrslitum. Skoðanakönnunin nýja bendir hins vegar til, að þessir þættir hafi mjög lítið hjálpað kjósendum að velja.
Hinum óákveðnu hefur að vísu fækkað úr 30% í 22% á þremur vikum. Síðari talan er samt mjög há. Og við hana bætast svo þau 7%, sem ekki vilja svara. Samtals svara þessar tölur til tæplega þriggja af hverjum tíu kjósendum.
Dagblaðið gerði í þetta sinn tilraun til að skyggnast í þá kosti, sem hinir óákveðnu eru að hugleiða. Í ljós kom, að helmingur þeirra var að velta fyrir sér einu forsetaefni eða fleirum, og að hinn helmingurinn var alveg óráðinn.
Samkvæmt þessu er kosningabaráttunni engan veginn lokið. Margt á eftir að gerast síðustu þrjá dagana, svo sem framboðsræður forsetaefna í sjónvarpinu annað kvöld. Kannski verða þær ræður þyngstar á metunum.
Mesta möguleika hafa Guðlaugur Þorvaldsson og Vigdís Finnbogadóttir. Þau hafa jafnan verið samhliða í forustu í skoðanakönnunum Dagblaðsins – og Vísis raunar líka. Bilið milli þeirra er ekki marktækt frekar en áður.
Því hefur stundum verið haldið fram, að skoðanakannanir hafi búið til tveggja manna kosningabaráttu milli Guðlaugs og Vigdísar. Sú kenning nýtur ekki stuðnings í þeirri staðreynd, að Albert Guðmundsson og Pétur J . Thorsteinsson hafa sótt á.
Birting skoðanakannana hefur ekki leitt til þess, að fylgi hafi flutzt frá vonminni frambjóðendum til hinna, sem í fararbroddi eru. Þvert á móti hefur fylgi hinna vonmeiri staðið í stað, en hinna aftari aukizt.
Ætli staðreyndin sé ekki sú, að birting skoðanakannana sé minna afl í aðdraganda kosninga en taugaslappir kosningastarfsmenn ætla? Hins vegar gefa slíkar kannanir öllum aðilum gott tækifæri til að meta stöðuna hverju sinni.
Mikið hefur verið deilt um gildi hinna mismunandi aðferða, sem notaðar hafa verið í könnununum. Eins og áður verður bezti mælikvarðinn fólginn í samanburði viðraunveruleg úrslit forsetakosninganna.
Dagblaðið telur, að rangt úrtak verði ekki réttara, þótt það sé stækkað. Það telur, að tölur úr tölvum séu jafn vitlausar og tölurnar, sem settar eru í þær. Og það telur marklaust að tákna fjóra kjósendur á Vestfjörðum með tveimur aukastöfum.
Þrátt fyrir allar deilur má ljóst vera, að báðar aðferðirnar eru nálægt réttu lagi. Tvisvar í röð hafa fengizt mjög svipaðar og næstum samhljóða niðurstöður í skoðanakönnunum Vísis og Dagblaðsins.
Aðdragandi þessara kosninga er þó ólíkur aðdragandi alþingis- og sveitarstjórnakosninga síðustu ára. Þá voru langflestir búnir að gera upp hug sinn viku fyrir kosningar, en nú virðist drjúgur hluti ætla að fresta því til síðustu stundar.
Allir vita svo, að skoðanakannanir eru ekki sjálfar kosningarnar. Þær fara fram á sunnudaginn kemur og það eru þær einar, sem gilda.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið