Fyrrum tíð verndaði danskur kóngur Íslendinga fyrir gráðugum embættismönnum stórbænda. Nú er enginn kóngur, bara jólasveinn á Bessastöðum. Enginn er til að passa þjóðina, sem kann fótum sínum ekki forráð. Við höfum horft á tvo íslenzka embættismenn, fjársýslustjóra og ríkisendurskoðanda. Annar fremur umboðssvik með arfavitlausum samningum um ímyndaðan hugbúnað. Hinn stingur undir stól skýrslu um þessa samninga, sem tveir bræður hans gerðu með sér. Vill leysa vanda sinn með því að klaga sögumenn fyrir löggustjóranum. Fámenn eyþjóð með innræktuðum kontóristum getur tæpast haldið úti sjálfstæðu ríki.