Enginn roðnar ­ fáir mögla

Greinar

Upphrópanir samtaka neytenda og kaupmanna út af 190% verndartolli á frönskum kartöflum eru gott dæmi um eitt af lögmálum Parkinsons. Ef upphæðin, sem fer í súginn, er nógu lítil skilja menn hana og rífast um hana. Stóru summurnar eru hins vegar látnar í friði.

Herkostnaður neytenda við að vernda tvo innlenda framleiðendur franskra nemur um 100 milljónum króna á þessu ári. Það er samanlögð verðhækkun á öllum frönskum, flögum, skrúfum og öðru ruslfæði, svo og á allri tilbúinni kartöflustöppu, sem fólk snæðir.

Þetta eru 1.700 krónur á árinu á hverja fjögurra manna fjölskyldu. Þessi skattur, sem ríkisstjórnin hefur lagt á herðar fólks, er nógu lítill til að menn skilji hann. Hann nemur þremur fimm hundruð króna seðlum og tveim tvö hundruð króna seðlum í veskinu.

Neytendasamtökin reyndu fyrr í vetur að vekja fólk til vitneskju um mun harðari ránsferð landbúnaðarins og stjórnarinnar, þegar framleiðsla eggja og kjúklinga var gerð að embættisstarfi á vegum ríkisins á sama hátt og verið hefur í hefðbundnum landbúnaði.

Vakningin mistókst. Neytendur héldu áfram að kaupa egg og kjúklinga eins og ekkert hefði gerzt. Enda hefur verið reiknað, að herkostnaður þeirra af innlendri einokun eggja- og kjúklingamarkaðarins nemur ekki hundrað milljónum, heldur heilum milljarði.

Ef heimilt væri að flytja inn þessar tvær vörutegundir, mundi fjögurra manna fjölskylda spara að meðaltali 17.000 krónur á árinu. Þetta virðist vera svo há upphæð, að fólk lætur sér hana í léttu rúmi liggja. Hún er hætt að vera heimilisfræði og orðin að hagfræði.

Neytendur og skattgreiðendur eru svo sammála um að láta kyrrt liggja, að umboðsmenn þeirra á Alþingi samþykki árlega að verja sex milljörðum króna til að halda úti framleiðslu hefðbundinnar búvöru. Þetta er svo há upphæð, að fólk tekur hana ekki alvarlega.

Ef ríkið hætti þessum peningalegu afskiptum af landbúnaði, mundi hver fjögurra manna fjölskylda spara að meðaltali 100.000 krónur á þessu ári. Það eru rúmlega 8.000 krónur í hverjum einasta mánuði. Lífskjör í landinu mundu batna langt umfram alla kjarasamninga.

Verkalýðsrekendur hafa jafnan látið sér þetta í léttu rúmi liggja. Formenn Alþýðusambands og Verkamannasambands hafa sjaldan harmað, að ríkið skuli ræna svona miklu af hverri fjölskyldu. Alþýðusambandið tók meira að segja lengi þátt í Sexmannanefnd.

Fiskverkunarkonur, sem nú fella samninga, er fela í sér 32.000 króna lágmarkslaun, mundu vafalaust geta notað 8.000 króna skattfrjálsan kjaraauka, er fengist með afnámi ríkisafskipta af fjármálum hins hefðbundna landbúnaðar. En þær segja ekki orð um ránið.

Íslenzkur landbúnaður kostar ekki bara 100.000.000 krónur á ári í kartöfluflögum, 1.000.000.000 krónur á ári í innflutningsbanni eggja og kjúklinga og 6.000.000.000 krónur á ári á fjárlögum ríkisins. Hann er þar fyrir utan vandamálaframleiðsla, sem daglega kemur á óvart.

Fyrir nokkrum misserum var bændum borgað fyrir að fara að rækta ref og kaupa fóður af stöðvum, sem ríkið kostaði. Nú á að fara að borga þeim fyrir að hætta að rækta ref og borga fóðurstöðvunum fyrir tilheyrandi viðskiptatap. Stjórnmálaöflin eru sammála um þetta.

Svo situr Búnaðarþing þessa daga á kostnað almennings og gerir daglega nýjar kröfur á hendur þjóðfélaginu. Enginn roðnar á þinginu og fáir mögla úti í bæ.

Jónas Kristjánsson

DV