Enginn tengist Halldóri

Punktar

ÓSKAR BERGSSON hefur engar vöflur á því. Hann sækist eftir toppsæti Framsóknar í prófkjöri til borgarstjórnar og segir framboð sitt byggjast að hluta á, að mikið ólag sé á forustu flokksins, einkum hjá Halldóri Ásgrímssyni forsætisráðherra.

ÓSKAR NEFNIR sérstaklega, að Siv Friðleifsdóttur var kastað úr embætti ráðherra og að Árni Magnússon varð ráðherra fram yfir Jónínu Bjartmarz, sem hafi staðið nær embætti. Óskar telur vinnubrögð Halldórs í fleiru hafa skaðað flokkinn.

MEÐ ÞESSU er Óskar auðvitað að beina framboði sínu gegn Birni Inga Hrafnssyni, aðstoðarmanni forsætisráðherra, sem einnig sækist eftir toppsæti Framsóknar í Reykjavík. Litið hefur verið svo á, að Halldór styðji framboð Björns Inga.

VIÐBRÖGÐ frambjóðendanna Björns Inga og Önnu Kristinsdóttur eru eindregin. Þau segjast líka vera óháð forsætisráðherra. Björn Ingi segist ekki taka ummæli Óskars til sín og Anna segist ekki vera sérstaklega tengd flokksforustunni.

ATHYGLISVERT er, að allir þessir frambjóðendur vilja búa til gjá milli sín og Halldórs Ásgrímssonar. Allir vita þeir, að forsætisráðherra er meira en lítið meðsekur í fylgishruni flokksins í skoðanakönnunum og vilja hreinsa sig af honum.

VANDI FRAMSÓKNAR kristallast í framboði Óskars og viðbrögðum Björns Inga og Önnu. Enginn þeirra vill kannast við Halldór Ásgrímsson í sínu liði. Enginn þeirra telur það vera sér til framdráttar að tengjast formanni flokksins og liði hans.

ÞETTA SEGIR ALLT, sem segja þarf um ástandið í Framsókn eftir langvinna formennsku Halldórs og tilheyrandi fylgistap flokksins. Við vitum altjend, hver er líkið í lestinni.

DV