Enn eitt kraftaverkið

Punktar

Þótt skrifstofu- og reglugerðabákn Evrópusambandsins sé stundum talið þungt í vöfum, gerist þar hvert kraftaverkið á fætur öðru. Í gær var samið um að stækka það um 10 ríki eftir hálft annað ár og hefja þá aðildarviðræður við Tyrkland til viðbótar. Ekki er liðið heilt ár síðan evran kom til skjalanna. Sambandið hefur haft eigin seðlabanka í örfá ár. Á fyrri hluta næsta árs tekur það að sér fyrstu hernaðaraðgerðina, friðargæzlu í Makedóníu. Þegar Tyrkir koma inn, fer íbúafjöldi Evrópusambandsins yfir hálfan milljarð manns. Ekki amalegur markaður það. Eftir alla þessa stækkun verða mál flutt og þýdd samhliða á 22 þjóðtungum. Íslenzka er ekki þar á meðal, af því að ráðamenn Íslands eru þröngsýnir. Þeir þora ekki að taka sæti við borð ákvarðana, en þurfa þó að láta reglugerðir og fjárheimtur Evrópu yfir sig ganga.