Enn eitt skólaáfallið

Greinar

Fjölþjóðleg könnun hefur leitt í ljós, að íslenzkir grunnskólanemar eru fremur illa á vegi staddir í landafræði, á svipuðum slóðum og bandarískir nemar, sem þekktir eru að fáfræði á þessu sviði. Í annarri könnun kom í ljós, að 70% íslenzkra nema ráða ekki við áttir á korti.

Í síðarnefndu könnuninni kom einnig fram, að fjórðungur íslenzkra grunnskólanema getur tæpast talizt læs. Einkum eiga börnin erfitt með að nýta sér myndrænar upplýsingar, svo sem í línuritum og annars konar gröfum, alveg eins og þau eru ekki vel læs á landakort.

Þetta dapurlega ástand er í skólakerfi, sem gefur sér heil sjö ár til þess tveggja ára verkefnis að kenna börnum að lesa, skrifa og reikna. Því má spyrja, til hvers íslenzkir skólar séu og hvort þeir séu fyrst og fremst geymslustaðir fyrir börn, svo að þau séu ekki á götunni.

Snemma var farið að misþyrma landafræði og raunar einnig sagnfræði í skólakerfi landsins. Áratugir eru síðan átthagafræði leysti þessar greinar af hólmi í yngstu bekkjunum og lengi hefur þokukennd samfélagsfræði komið í stað landafræði og sagnfræði í eldri bekkjum.

Landafræði og sagnfræði eru afmarkaðar fræðigreinar. Landafræðin hefur samhengi í flatarmáli og sagnfræði í atburðarás. Það dugir ekki að búta þessar greinar í sundur í eins konar sýnishorn og líma brotin saman með tízkufyrirbæri á borð við félagslega vandamálafræði.

Bandaríkjamenn byggja ekki mikið á utanríkisviðskiptum og geta því litið á getuleysi í landafræði sem minni háttar böl. Það getum við hins vegar ekki, af því að utanríkisviðskipti eru óvenjulega mikilvægur þáttur þjóðfélagsins og raunar hornsteinn tilveru okkar.

Vegna utanríkisviðskipta okkar þurfum við að þekkja japanska sögu og landafræði, bandaríska og evrópska. Við höfum í staðinn eins konar Tanzaníufræði, þar sem búin er til rammfölsk mynd af þriðja heims einræðisríki, þar sem nær allt hefur gengið á afturfótunum.

Í skólakerfinu hafa ekki aðeins orðið afdrifarík mistök á afmörkuðum sviðum, svo sem með samfélagsfræðinni og mengjafræðinni, heldur hafa líka verið framleidd vandamál með aðgerðum, sem eru almenns eðlis. Þessar aðgerðir hafa stundum verið nefndar: Fúsk og leikir.

Sem dæmi um það er áherzlan á hópvinnu, sem felur í sér, að einn nemandi hópsins er bílstjóri og hinir hlutlausir farþegar, sem hafa lítið gagn af hópvinnunni. Þetta er angi þeirrar áráttu og rangmats að telja félagsleg vinnubrögð vera merkilegri en framtak einstaklingsins.

Annað dæmi er áherzlan á þjónustu við nema, sem eru til geymslu í skólunum og hafa lítinn eða engan áhuga á raunverulegu námi. Þetta lækkar staðalinn án þess að koma þessum nemum að gagni. Tekin eru upp vinnubrögð, sem eiga að forða nemum frá fyrirhöfn.

Hér hafa aðeins verið rakin dæmi um það, sem miður fer. Þau eru tilraun til að skýra út frá kerfinu, hvers vegna athuganir leiða aftur og aftur í ljós, að íslenzka skólakerfið nær ekki þeim árangri, sem stefnt er að, og ekki sama árangri og sumt erlent skólakerfi nær.

Fúsk og leikir geta ekki komið í stað vinnu og fyrirhafnar. Hópvinna getur ekki komið að sama gagni og vinna. Börn þurfa að verða vel læs á fáum árum, en ekki illa læs á sjö árum. Ekki má spilla grónum námsgreinum með því að klippa þær niður í samfélagsgraut.

Þegar fjórðungur íslenzkra barna getur ekki talizt læs og þegar Ísland lendir í 17. sæti af 25 í landafræðikunnáttu, er eðlilegt að telja kerfið sjálft vera í ólagi.

Jónas Kristjánsson

DV