Enn eitt vorið hvarf

Greinar

Blóðbaðið í Beijing í Kína um helgina minnir okkur á, að afturhvarf hefur oft orðið frá lýðræðislegri þróun í ríkjum kommúnismans. Einu sinni var talað um vorið í Prag í Tékkóslóvakíu, en því fylgdi ekkert sumar, heldur pólitískur fimbulvetur, sem stendur enn.

Til skamms tíma var Kína dálæti margra á Vesturlöndum og voru ráðamenn Bandaríkjanna þar fremstir í flokki. Til dæmis ferðaðist Bush Bandaríkjaforseti um Kína fyrir skömmu og sýndi ráðamönnum ríkisins óhóflega kurteisi í málum þekktra andófsmanna.

Fjölmiðlar á Vesturlöndum létu ekki sitt eftir liggja. Deng Xiaoping hefur verið hampað ótæpilega sem boðbera hins nýja tíma vestræns hagkerfis. Menn gleymdu, að hann lét banna veggblöðin í Beijing, um leið og hann hafði notað þau til að komast aftur til valda.

Um leið og frostið linast í einhverju slíku ríki, fyllast menn bjartsýni á Vesturlöndum. Mikill skortur er á sagnfræðilegu minni hjá vestrænum stjórnmálamönnum og blaðamönnum. Menn láta eins og nokkurra stiga lækkun frosts marki komu eilífs sumars og friðar.

Menn urðu fyrir vonbrigðum, þegar sumarið kom ekki í Ungverjalandi 1954, í Tékkóslóvakíu 1968 og í Póllandi 1981. Nú verða menn fyrir vonbrigðum, þegar sumarið kemur ekki í Kína 1989. Samt eru menn sífellt tilbúnir að trúa á nýjan leik á komu eilífs sumars.

Þótt erfitt sé að finna dæmi úr sögunni um, að sumar fylgi í kjölfar pólitísks vors í löndum kommúnismans, er ekki rétt að fullyrða, að slíkt geti aldrei gerzt. Við vitum ekki, hvað verður úr vorinu í Sovétríkjunum, Póllandi og Ungverjalandi, sem er í blóma á þessu ári.

Hugsanlega getur komið sumar eftir pólitískt vor í nokkrum ríkjum kommúnismans. Vesturlandabúar þurfa að gera sitt bezta til að hlúa að slíku, svo framarlega sem þeir leggja ekki framtíð lýðræðisskipunar sinnar að veði, af einfaldri, mannlegri trúgirni.

Þessi vandi hefur leitt til átaka í varnarsamtökum vestrænna ríkja. Annars vegar hafa staðið ráðamenn engilsaxnesku ríkjanna, sem vilja ekki, að gagnkvæmur samdráttur í vopnabúnaði leiði til tímabundinnar aukningar á sóknarfærum Varsjárbandalagsins.

Þeir vildu lengi vel ekki taka í mál, að hafnar yrðu viðræður austurs og vesturs um skammdrægar kjarnorkuflaugar, fyrr en að loknum ákveðnum árangri í samdrætti hefðbundins herafla. Á því sviði hafa yfir burðir Sovétríkjanna verið taldir hættulega miklir.

Hins vegar hafa svo staðið ráðamenn í Vestur-Þýzkalandi, studdir valdamönnum í ýmsum bandalagsríkjum meginlandsins. Þeir hafa talið, að vorið í austri veitti Vesturlöndum heimssögulegt, tímabundið tækifæri til að ná umtalsverðum árangri í samdrætti vígbúnaðar.

Bush Bandaríkjaforseti hafði forustu um málamiðlun á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í Bruxelles fyrir réttri viku. Tillaga hans tók skynsamlegt tillit til beggja sjónarmiðanna og hlut eindreginn stuðning á fundinum, sem lauk í meiri sátt en við var búizt.

Niðurstaðan er, að áfram verður unnið af krafti að samningum við Sovétríkin og fylgiríki þeirra um margvíslegan niðurskurð vopna, en Vesturlönd ræða ekki um að loka kjarnorkuregnhlífinni, fyrr en eftir umtalsverðan árangur í samningum um hefðbundin vopn.

Blóðbaðið í Beijing minnir okkur á að fara gætilega í viðskiptum við stjórnvöld, sem eru svo vanstillt í valdbeitingu, að þau aka skriðdrekum yfir eigið fólk.

Jónas Kristjánsson

DV