Enn er óbragð

Greinar

Óneitanlega eru margir hér á landi enn mjög sárir út i norsk stjórnvöld vegna tilrauna þeirra í fyrrasumar til að ná undirtökum í Jan Mayen málinu með óskemmtilegum brögðum í leiftursókn gegn Íslendingum.

Ráðherrar norska Verkamannaflokksins og verndarar íslenzka Alþýðuflokksins beittu fyrst fyrir sig íslenzkum flokksbróður, Benedikt Gröndal, þáverandi utanríkisráðherra. Þeir töldu honum trú um, að deilan snerist um miðlínu.

Þannig komst norska stjórnin aftan að Íslendingum. Hér heima vissu stjórnmálamenn lítið sem ekkert um innihald einkaviðræðna Benedikts, þegar þrír ráðherrar norsku stjórnarinnar komu til Íslands í lok júní.

Norsku ráðherrarnir buðust til að takmarka loðnuveiðar sinna manna við Jan Mayen gegn því að Íslendingar samþykktu miðlínu. Þessi einstæða frekja kom flatt upp á íslenzka stjórnmálamenn, aðra en Benedikt Gröndal.

Svo byrjuðu hótanirnar, þegar Íslendingar þvældust fyrir í viðræðunum. Fyrst var sagt, að engan tíma mætti missa, því að annars mundu Sovétmenn veiða alla loðnuna. Með þessum ósannindum átti að taka okkur á taugum.

Þegar hinum norsku ráðherrum varð ljóst, að Benedikt Gröndal talaði ekki fyrir munn Íslendinga í Jan Mayen málinu, ruku þeir burt i fússi. En taugastríði þeirra lauk ekki, þótt Sovétmenn lýstu yfir áhugaleysi á loðnu.

Samanlagt stóð þessi skyndisókn norskra stjórnvalda allan júlí og fram eftir ágúst. Þegar Rússagrýlan var úti, fóru norsk stjórnvöld að hóta ofveiði af eigin hálfu á loðnu við Jan Mayen. Þau sögðust ekki ráða við norska sjómenn.

Við vitum núna, hvernig þetta taugastríð endaði. Við verðum því alveg róleg næst, þegar við mætum nýrri leiftursókn af norskri hálfu í sumar. En undir niðri þökkum við okkar sæla fyrir að hafa sloppið fyrir horn í fyrra.

Það varð okkur til bjargar, að nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Alþýðubandalagsins áttuðu sig á, hvað var að gerast. Þeir mótuðu af Íslands hálfu tillögur í Jan Mayen málinu, þar sem tekið var tillit til Íslands.

Þessi sjónarmið voru mjög studd hér í Daghlaðinu. Ennfremur snerist þáverandi forsætisráðherra og núverandi utanríkisráðherra, Ólafur Jóhannesson, á sveif með þeim, sem töldu, að hafa þyrfti góðar gætur á islenzkum hagsmunum þar nyrðra.

Þegar Ólafur lýsti því yfir í ágústlok, að ekki kæmi til greina, að við deildum hafsbotninum við Jan Mayen með Norðmönnum, mátti segja, að norska leiftursóknin væri endanlega runnin út í sandinn.

Síðan hefur verið reynt að hóta með hugmyndum um norska fiskibátahöfn á Jan Mayen. Þetta var minni háttar útspil, sem Ólafur Jóhannesson kallaði “veikleikamerki”. Annars hefur verið tíðindalítið á þessum vígstöðvum í vetur.

Íslendingar viðurkenna ekki norska efnahagslögsögu við Jan Mayen af ástæðum, sem raktar hafa verið í leiðurum Dagblaðsins undanfarna daga. Íslendingar telja sig raunar hafa meiri rétt til Jan Mayen en Norðmenn hafi.

Auðvitað höfum við ekki styrk til að fylgja rétti okkar eftir til fulls. Og auðvitað vitum við, að á endanum verða Norðmenn og Íslendingar að semja í vinsemd um málið. En lævísin og leiftursóknin hafa skilið eftir óbragð, sem við finnum enn.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið