Enn eru berin súr

Greinar

Jón Baldvin Hannibalsson er sammála Davíð Oddssyni um, að berin séu súr. Hann telur forsetaembættið fremur tilgangslítið og valdalaust eftirlaunastarf, sem henti ekki stjórnmálamanni í blóma lífsins. Hann segist ekki hafa áhuga á að setjast í helgan stein sem forseti landsins.

Hann telur samt eins og Davíð, að frambjóðendurnir séu ekki starfsins verðir. Davíð hafði kvartað um, að í þeim hópi væru væntanlegir farandsendiherrar og fyrirverandi ráðhúsandstæðingar. Jón Baldvin kvartar um, að forsetaefnin geri ekki grein fyrir málstað sínum.

Þetta er beinlínis rangt hjá honum. Öll forsetaefnin hafa rækilega gert grein fyrir viðhorfum sínum til forsetaembættisins. Sum hver hafa gert það við ótal tækifæri. Öll hafa þau til dæmis svarað spurningum DV um þau efni og Pétur Hafstein gerir það í blaðinu í dag.

Þegar nær dregur kosningum, munu þessi viðhorf vafalaust verða margsinnis endurtekin og einnig dregin saman í einfaldar línur. Kjósendur hafa þegar fengið tækifæri til að átta sig á stefnumun frambjóðenda og munu fá enn betri tækifæri til þess á næstu vikum.

Athyglisvert er, að tveir af helztu stjórnmálamönnum landsins skuli hafa verið að velta fyrir sér framboði til embættis, sem báðir segja svo lítilfjörlegt, að þeir vitna í Sigurð Líndal lagaprófessor því til staðfestingar. Það taki því tæpast að láta þjóðina kjósa forseta beint.

Jón Baldvin spyr, hvort þjóðin sé að kjósa um, hvaða hjón muni koma bezt fyrir á Bessastöðum. Margir telja það ekki vera ómerkilegt mál. Margir telja sig vera að kjósa sér þjóðarföður eða þjóðarmóður, sem sé eins konar sameiningartákn þjóðarinnar rétt eins og fáninn.

Jón Baldvin er hins vegar kominn með þurrt land undir fætur, þegar hann gagnrýnir hugmyndir um, að Bessastaðir verði virkjaðir í þágu afmarkaðra málefna á alþjóðlegum vettvangi eða að þeir verði eins konar upphafin markaðsdeild í utanríkisráðuneytinu.

Sérstaklega er ástæða til að vara við, að embættið verði að símstöð fyrir sambönd meira eða minna skuggalegra valdhafa og viðskiptajöfra í þriðja heiminum. Sérstaklega er óraunhæft að ætla, að Íslendingar geti haft fé út úr braski með tækifærissinnum af því tagi.

Hins vegar benda skoðanakannanir og ýmis önnur teikn til þess, að mikill hluti þjóðarinnar sé fjarskalega sáttur við alþjóðapólitíska virkjun Bessastaða. Fólk hefur sýnt meiri stuðning við frambjóðanda með útsækna stefnu en hina, sem vilja fremur fara með löndum.

Hugsanlegt er, að Jón Baldvin sé fyrst og fremst að hugsa um að draga Ólaf Ragnar Grímsson út úr skápnum og fá hann til að fjalla svo mikið um skoðanir sínar á utanríkismálum og viðskiptamöguleikum við valdhafana í Víetnam, að tvær grímur fari að renna á fólk.

Hins vegar er það vafasöm iðja hans eins og Davíðs að gera því skóna, að forsetakosningar séu orðnar eins konar ógöngur, sem jafnvel beri að afnema, annaðhvort með samruna embættisins við önnur embætti eða með því að fela Alþingi valdið til að kjósa forseta.

Enginn vafi er á, að þjóðin vill áfram kjósa sér forseta samkvæmt óbreyttri stjórnarskrá og vill sjálf ákveða, hvort það nægi sér, að forsetahjónin komi vel fyrir á Bessastöðum, eða hvort forsetinn eigi þar á ofan að vera á þönum úti í heimi til að bjarga friði eða viðskiptum.

Enda eiga flestir auðvelt með að sjá, að raunverulegt innihald langhunda Davíðs og Jóns Baldvins um forsetaembættið er að upplýsa okkur um, að berin séu súr.Jónas Kristjánsson

DV