Jólin eru forn skammdegishátíð í köldum löndum. Eftir vetrarsólstöður safnaðist fólk saman við veizluborð og fagnaði vaxandi birtu. Lýsti von um gæzku jarðar og frjósemi manna og dýra. Fólk át og drakk og var glatt. Leyfði brjóstbirtu að lýsa skammdegið og gera fólki kleift að þola mörsug og þorra. Þannig eru jólin enn, þótt hlaðið hafi verið á þau kristinni helgi. Minna fer þó fyrir drottni allsherjar en trúarbrögðum Mammons, er situr í hásæti með Óðni og Frey. Gjafir, matur og drykkur einkenna nútímajól eins og hin fornu jól. Fólk „drekkur jól“ og „heyr Freys leik“. Því meira sem hlutir breytist, því meira eru þeir eins.