Enn sigrar Framsókn.

Greinar

Stjórnarflokkarnir hafa náð samkomulagi um ný útvarpslög á þann hátt, að tveir þingmenn þeirra hafa komið sér saman um breytingar á upphaflegu frumvarpi og gert það að enn meiri moðsuðu en áður. Frumvarpið var slæmt fyrir og er eftir breytingarnar orðið enn verra.

Frelsið, sem frumvarpið átti í orði kveðnu að auka, er skert verulega í nýju útgáfunni. Settar eru inn greinar, sem miða að eflingu Ríkisútvarpsins og aðrar, sem torvelda frjálsan útvarpsrekstur. Ljóst má vera, að í enn einu málinu hefur stefna Framsóknarflokksins sigrað.

Upprunalega frumvarpið var spor í þá átt að auka frelsið í útvarpsmálum. Það var að vísu mjög varfærnislegt, enda samið af nefnd allra flokka sem eins konar málamiðlun milli einokunarsinna og frjálsræðissinna. Enginn var í rauninni sáttur við þessa málamiðlun.

Ólafur Þórðarson og Halldór Blöndal alþingismenn hafa nú komið sér saman um nýja málamiðlun, sem er meiri moðstuða en hin fyrri. Eina skýra línan í breytingum þeirra er, að dregið er úr því frelsi, sem upphaflega var markmiðið með starfi hinnar svokölluðu útvarpslaganefndar.

Frumvarpið felur í sér, að frjálsar útvarpsstöðvar eru skyldaðar til að greiða sérstakt leyfisgjald, svo og öll önnur opinber gjöld, svo sem tekju- og eignaskatt, útsvar og aðstöðugjald, en Ríkisútvarpið á að sleppa við öll þessi opinberu gjöld.

Frumvarpið felur í sér, að frjálsar útvarpsstöðvar eru skyldaðar til að láta hluta af tekjum sínum renna til Sinfóníuhljómsveitarinnar til að létta undir með Ríkisútvarpinu, sem á að fá að sitja áfram að bæði afnotagjöldum og auglýsingatekjum.

Frumvarpið felur í sér, að afnotagjöldum Ríkisútvarpsins er breytt í skatt. Það á að skylda þjóðina til að greiða rekstur Ríkisútvarpsins, þótt margir mundu fremur kjósa að láta sinn hluta renna til frjálsra útvarpsstöðva. Fólk fær ekki að velja.

Frumvarpið felur í sér, að auka á rekstur Ríkisútvarpsins á ýmsan hátt, til dæmis með staðbundnu útvarpi og staðbundinni dagskrárgerð. Augljóst er, að þessi ákvæði eiga að draga úr líkum á, að staðbundið útvarp annarra aðila verði að veruleika.

Allar þessar breytingar og aðrar miða að því að hindra frelsið á borði, þótt annað sé haft í orði. Sjónarmið framsóknarmanna hafa gersigrað í hinni nýju málamiðlun og ekkert tillit er tekið til þeirra, sem vildu færa frumvarpið fremur í aukna frjálsræðisátt.

Enn sem komið er felst aðeins í þessu sigur Ólafs Þórðarsonar á Halldóri Blöndal. Alþingi getur enn gripið í taumana og breytt frumvarpinu, bæði til að auka frelsið og til að stöðva ákvæðin um útþenslu Ríkisútvarpsins. Vonandi ber það gæfu til slíks.

Satt að segja væri bezt, að hin nýja útgáfa útvarpslagafrumvarpsins fengi að daga uppi á Alþingi. Það er óskapnaður, sem tryggir, að Íslendingar verði áfram eftirbátar annarra þjóða í útvarpsefnum. Frjálsræðisöflin geta þá alténd haldið áfram baráttunni.

Einhvern tíma munu þessi öfl eignast stuðningsmenn á Alþingi, menn sem láta ekki Framsóknarflokkinn beygja sig í hverju málinu á fætur öðru. Meira frelsi í framtíðinni er mikilvægara en næstum ekkert frelsi strax. Þrýstingurinn mun vaxa og færa okkur betri lög, þótt síðar verði.

Jónas Kristjánsson.

DV