Enrico’s

Veitingar

*
Fornihvammur

Mest var reykt í sófasettum úti við glugga, þar sem stuðningsfólk staðarins sat í keng við að borða fram á hné sér. Þar lá líka ljóska endilöng í sófa með kjólinn upp á mið læri og las í bók. Sem betur fer sneri hún höfðinu í gluggann til að fyrirbyggja misskilning vegfarenda.

Staðurinn er bjartur, með parketti í gólfum og borðplötum og rauðri rós og kerti á hverju borði. Veggir eru hvítir með hallærismyndum, þar á meðal eftirlíkingum úr léttu plasti af gömlum marmaramyndum frá Miðjarðarhafi. Gamaldags ljósakrónur í loftinu eru í beztu samræmi við matreiðsluna.

Nafnsins vegna taldi ég Enrico’s vera ítalskan veitingastað, en hann er það alls ekki. Þetta er sítrónukryddað íslenzkt ofeldunarhús með ívafi rétta frá Mexikó, tacos, quesadilla og nacos.

Dæmigerður fyrir staðinn er þrauteldaður eldislax með miklu af ógeðslega brúnni fiskfitu og brenndum kartöflum. Langt var orðið síðan ég hafði fengið óhreinsaða laxafitu í matinn.

Súpa dagsins reyndist vera dauft sítrónukrydduð sveppasópa, hefðbundin þjóðvegarsúpa. Sveppir og sniglar voru bornir fram á ágætu hrásalati, mun betra en því, sem fylgdi áðurnefndum laxi. Rétturinn jóðlaði í mikilli olíu.

Skást reyndist vera lambakjöt að kvöldi, fallega rósrautt, en afar lítið, ef nokkuð kryddað. Það hvíldi á pönnusteiktu grænmeti, sem lá í bragðlausri hvítri rjómasósu dauflega sítrónukryddaðri. Til hliðar voru brenndir kartöflubátar.

Dauft espresso var í stíl við daufa matreiðslu staðarins. Þjónusta var frambærileg, en spurði ekki um reyk eða reyklaust, enda er vafalaust erfitt að skipta 32 sætum í ferningslaga veitingasal.

Rétt er að taka strax fram, að Enrico’s er fremur ódýrt veitingahús, svipað og Þrír frakkar, Rossopomodoro og Caruso. Forréttir kosta að meðaltali 1350 krónur, aðalréttir 2400 krónur og eftirréttir 1050 krónur, samtals 4800 krónur. Í hádeginu fæst súpa og fiskur dagsins á 1050 krónur.

Handan risastórra glugga má sjá Lífstykkjabúðina neðst við Laugaveginn. Munur staðanna er sá, að búðin hefur yngt sig upp síðan hún var stofnuð 1912, en veitingahúsið ekki. Það er fætt gamalt, hefur matreiðslu, sem minnir mig á laxinn í Fornahvammi fyrir 60 árum.

Jónas Kristjánsson

DV