Enskukennslan mistókst

Greinar

Sjávarútvegsráðherra okkar hefur mistekizt að reyna að kenna Bandaríkjamönnum ensku. Viðsemjendur hans þar vestra hafa neitað að trúa, að “primary for local consumption” þýði útflutning hvalafurða til Japans fremur en neyzlu þeirra hér innanlands.

Þeir hafa óformlega látið íslenzka ráðamenn vita, að þeir muni biðja viðskiptaráðherra Bandaríkjanna um að fara þess á leit við Bandaríkjaforseta, að hann láti beita Íslendinga efnahagsþvingunum vegna rangtúlkunar okkar á ofangreindu orðalagi hvalveiðiráðsins.

Þeir reikna með, að viðskiptaráðherra þeirra geri þetta á mánudaginn. Síðan hefur forsetinn 60 daga frest til að hugsa sig um, hvort hann eigi að verða við óskinni. Talið er, að hann eigi erfitt með að ganga fram hjá enskusérfræðingum viðskiptaráðuneytisins.

Þannig er smám saman að koma fram, sem DV hefur lengi spáð, að hvalveiðiþrjózka sjávarútvegsráðherra okkar eigi eftir að verða þjóðinni dýr, ef hann verður ekki stöðvaður tímanlega. Hagsmunir okkar eru fólgnir í öllu öðru en vafasömum hvalveiðum.

Við erum ekki aðeins í vandræðum með Bandaríkjamenn. Japanir óttast svo fiskveiðihömlur þeirra, að komið hefur fram, að þeir munu tæplega þora að kaupa meira af hvalafurðum okkar. Það getur endað með, að við verðum sjálf að snæða hið vísindalega hvalkjöt.

Við getum dregið margs konar lærdóm af mistökum sjávarútvegsráðherra okkar í enskukennslu. Við megum til dæmis engan veginn leggja eins mikla áherzlu á Bandaríkjamarkað í útflutningi og við gerum nú. Stórhættulegt er að hafa svo mörg egg í einni körfu.

Þetta er orðið enn hættulegra síðan dólgsháttur fór að vaxa í utanríkisviðskiptastefnu núverandi Bandaríkjastjórnar. Við erum ekki hinir einu, sem verðum fyrir barðinu á Rambó. Japanir og Vestur-Evrópumenn mega líka sæta ýmsum viðskiptahótunum.

Bandaríkjastjórn er í þann veginn að hætta að líta okkur jafnelskulegum augum og hún lítur Suður-Afríku og Sovétríkin, sem hún beitir ekki viðskiptaþvingunum. Við erum að lenda í sama báti og Nicaragua, sem er beitt bandarískum viðskiptaþvingunum.

Nicaragua má þakka fyrir að hafa ekki bandarískan her í landi. Spurning okkar er að verða, hvort lengur sé óhætt að hafa hér bandarískan her, þegar Ísland er í augum ráðamanna hans orðið verra en Suður-Afríka og Sovétríkin, jafnvont og Nicaragua.

Til lítils er að tala um siðferði í máli þessu. Okkar menn snúa út úr ályktunum hvalveiðiráðsins, ef það hentar þrjózku þeirra. Bandaríkjastjórn þvingar þá, sem hún ræður við. Hún ræður ekki við Rússa, en telur sig væntanlega geta fengizt við okkur.

Ekki dugar heldur að benda á hina hlálegu þverstæðu, að Bandaríkjamenn veiða margfalt fleiri hvali en við, meira að segja höfrunga, sem taldir eru gáfaðri hvalir en hinir, sem við veiðum. Það er nefnilega vitað, því miður, að við erum að veiða fyrir Japansmarkað.

Við eigum að fara að skilja, að tími hvalveiða er liðinn. Við getum ekki farið í kringum aðra með rangtúlkun orðalags, svo sem nú hefur greinilega komið í ljós. Og við getum ekki sannfært neinn um, að veiða þurfi hundrað hvali á ári í svokölluðu vísindaskyni.

Við eigum líka að skilja, að við verðum að dreifa sölu sjávarafurða sem víðast, einkum til Evrópu og Japans, svo að Rambó geti ekki þvingað okkur.

Jónas Kristjánsson

DV