Er líf milli kannana?

Greinar

Stjórnmálamenn fara eftir skoðanakönnunum, þótt þeir lasti þær stundum. Þeir skipta jafnvel um borgarstjóraefni í miðri á, ef skoðanakannanir eru ekki nógu hagstæðar. Með sama áframhaldi hætta stjórnmálamenn að stjórna og gerast sporgöngumenn skoðanakannana.

Erlendis hefur mátt sjá, að áhrif skoðanakannana á framgöngu stjórnmálamanna hafa hægt og sígandi verið að aukast í nokkra áratugi. Þetta ósjálfstæði stjórnmálamanna er orðið svo ráðandi, að sumir valdamenn gera nánast ekkert án þess að spyrja skoðanakannanir fyrst.

Þetta gengur út í þær öfgar, að langtímasjónarmið víkja fyrir skammtímasjónarmiðum. Stjórnmálamenn fara að hugsa í stuttum tímaeiningum milli skoðanakannana í stað þess að hugsa í heilum kjörtímabilum; eða það, sem bezt er, í heilum stjórnmálaferli sínum.

Flestir stjórnmálamenn hafa meiri áhyggjur af næstu skoðanakönnun en stöðu sinni í veraldarsögunni eða landssögunni. Þetta veldur því, að þeir haga sér að verulegu leyti eins og tízkufyrirbæri. Þeir endast illa og fá léleg eftirmæli, þegar þeir hafa lokið ferli sínum.

Þetta er ekki skoðanakönnunum að kenna, heldur stjórnmálamönnunum sjálfum. Þeir gætu haft meira hóf í dýrkun sinni á skoðanakönnunum. Og skoðanakannanir hafa líka mjög jákvæð áhrif. Þær koma til dæmis í veg fyrir, að kosningastjórar mati fólk á ýktum fylgistölum.

Skoðanakannanir valda því, að við getum tiltölulega nákvæmlega fylgst með gengi flokka og manna í kosningabaráttu og þurfum ekki að sæta bulli úr kosningastjórum. Þær eru viðbót við fyrri upplýsingar og sem slíkar auka þær við þekkingu fólks og heilla þjóða.

DV hefur í vetur lagt sérstaka áherzlu á birtingu niðurstaðna skoðanakannana um fylgi framboðslistanna í Reykjavík. Þessar kannanir hafa orðið tíðari með vorinu og verður sú næsta birt á mánudaginn. Spennandi verður að sjá, hvort hún sýnir marktæka breytingu.

Hingað til hafa kannanirnar ekki sýnt miklar sveiflur og raunar eindregna yfirburði R-listans. Þær sýna líka, að persónur borgarstjóraefnanna skipta meira máli en nokkru sinni fyrr. Þær selja báðar svo vel, að segja má, að kosningabaráttan snúist bara um tvær persónur.

Könnun DV hefur sýnt, að kjósendur hafa litla sem enga skoðun á öðrum frambjóðendum listanna og í sumum tilfellum er hún fremur neikvæð en jákvæð. Borgarstjóraefnin fá hins vegar mjög jákvæða útkomu, Ingibjörg Sólrún 42% gegn 3% og Árni 26% gegn 7%.

Hingað til hafa kannanirnar sýnt, að óvenjulega stór hluti kjósenda hafði þegar gert upp hug sinn, áður en kom að kosningabaráttu. Aðeins 20% þeirra höfðu ekki afstöðu eða vildu ekki tjá sig. Yfirleitt hefur þetta hlutfall verið um og yfir 40% í upphafi kosningabaráttu.

Þegar kosningabaráttan var hafin, hækkaði hlutfall óákveðinna og þeirra, sem ekki vildu tjá sig, úr 20% í 25%. Það bendir til, að kosningabarátta geti lítillega hrært upp í sumu fólki. En það sannar ekki, að kosningar vinnist á að kasta tugmilljónum króna í þær í örvæntingu.

Þessar staðreyndir einkenna kosningabaráttuna. R- listinn reynir að halda sjó og forðast mistök. D-listinn leitar nýrra hliða, sem geti framkallað slík mistök. Báðir fiska listarnir sem óðast í þeim fimmtungi kjósenda, sem ekki hafði gert upp hug sinn í síðustu skoðanakönnun.

Hitt er svo önnur saga og gleðileg, að hvernig sem úrslit verða, fá Reykvíkingar borgarstjóra, sem verður mun betri en hefðbundnir stjórnmálaforingjar landsins.

Jónas Kristjánsson

DV