Er óvissa óbærileg?

Greinar

Rétt er hjá fastgengissinnum, að óeðlilegt er að miða skráningu á gengi krónunnar við afkomu fiskveiða og fiskvinnslu. Slík viðmiðun leiðir til að atvinnugreinin er árum saman rekin á núlli, hvort sem hún eykur hagkvæmni og framleiðni sína eða stendur í stað.

Í fiskvinnslustöðvum okkar eru flökunar- og flatningsvélar, sem geta tekið við öllum þorskafla ársins á sex dögum og öllum afla af ýsu og ufsa á tveimur dögum til viðbótar. Flatfiskvélarnar geta sinnt sínu hlutverki á tíu dögum og karfavélarnar á átján dögum.

Offjárfesting í fiskvinnslu, einkum í frystihúsum, bendir til, að skort hafi aðhald og að landað sé í of mörgum höfnum. Menn kaupa ekki eina vél af hverri gerð, ef þeir þurfa að velta hverri krónu fyrir sér og ef þeir geta komið á sérhæfingu vinnslustöðva á staðnum.

Fiskvinnslan er að neyðast til að auka framleiðni sína með sérhæfingu. Samkeppni hennar við útflutning á ferskum fiski þvingar hana til að einfalda vinnsluna. Og fiskmarkaðirnir nýju gera miklum hluta hennar kleift að velja fisk við hæfi og að einfalda vinnsluna.

Ferskfiskútflutningur og fiskmarkaðir eru tæki, sem aukið athafnafrelsi færir okkur til að magna arðsemi þjóðfélagsins. Fiskmarkaðir munu blómstra í þéttbýli og gera fiskvinnslu þar arðbæra. Hins vegar verður strjálbýlið fremur að treysta á ferskfiskútflutning.

Þetta höfum við ekki fengið með auknu skipulagi að ofan, heldur með minnkun þess og afnámi. Við erum ekki lengur í viðjum opinberrar ákvörðunar fiskverðs og ekki háð eins miklum höftum á útflutningi og áður var. Frjálst krónugengi er næsta skrefið á þessari braut.

Viðurkenning þess, að gengi krónunnar skuli ekki miða við útreikning Þjóðhagsstofnunar á afkomu fiskvinnslu, á sér ekki rökrétt framhald í fastgengisstefnu ríkisstjórnarinnar, hagstjóra hennar og Seðlabanka. Rökrétt framhald felst í markaðsgengi krónunnar.

Fastgengisstefnan hefur hættuleg hliðaráhrif. Hún eykur innflutning erlendrar vöru og þjónustu og dregur úr getu útflutningsgreina til að keppa við aðrar atvinnugreinar í þjóðfélaginu. Hún eykur halla viðskiptanna við útlönd og stækkar skuldasúpu okkar í útlöndum.

Að fara úr sjávarútvegsviðmiðun á gengi krónunnar yfir í fastagengi er að fara úr öskunni í eldinn. Í stað gamalkunnugs vandamáls, sem felst í skorti á hagkvæmni í einni atvinnugrein, fáum við miklu stærri vanda, sem felst í óhagkvæmara þjóðfélagi yfirleitt.

Sjávarútvegsviðmiðun og fastagengi eiga það sameiginlegt að vera ákvörðun að ofan, byggð á útreikningum í stofnunum. Hvort tveggja er í stíl opinbers fiskverðs, kvótakerfis og annarra hafta, sem stjórnmálamenn hafa notað til að leysa lítinn vanda með stórum vanda.

Markaðsverð á gengi er hins vegar í stíl nýja tímans, sem tekur kaleik skipulagsins af valdamönnum og hagstjórum þeirra. Ákvarðanir í þeim stíl hafa gefizt okkur vel. Alþjóðleg reynsla segir okkur líka, að markaðurinn sé bezti skipuleggjandi efnahags- og fjármála.

Í hvert einasta skipti, sem við höfum staðið andspænis ákvörðunum um að létta af höftum og skipulagi, hafa menn fengið hland fyrir hjartað og ímyndað sér, að upplausn mundi fylgja í kjölfarið. Því óttast margir núna markaðsgengi krónunnar og vilja fastagengi.

Ríkisstjórnin, hagstjórar hennar og Seðlabankinn eru sammála um, að óvissa frelsisins sé svo óbærileg, að betra sé að setja þjóðfélagið í spennitreyju fastagengis.

Jónas Kristjánsson

DV