Er vilji í sandkassanum?

Greinar

Ekkert svigrúm er til sandkassaleikja á alþingi, þegar mæta þarf þjóðarteknamissi, sem mun samtals nema tíundu hverri krónu á þessu ári og hinu næsta. Við slíkar aðstæður dugar engum að fara með ábyrgðarlaust rugl út í loftið.

Alþingi hefur í löggjafarvaldinu töluverð áhrif á dreifingu tapsins. Með því að gera ekki neitt hefur alþingi einnig áhrif, sem í því tilviki birtast í örari skuldasöfnun í útlöndum, svona rétt á meðan lánstraustið endist.

Nú þegar fer fjórða hver króna af útflutningstekjum okkar til greiðslu afborgana og vaxta af erlendum skuldum. Við getum ekki haldið lengra eftir þeirri braut án þess að lenda í vítahring, sem er mun verri en núverandi vandi.

Hluti af lausn vandans er, að alþingi samþykki bráðabirgðalög ríkisstjórnarinnar. Þar með fylgja þrjú hliðarfrumvörp, sem í sjálfu sér eru ekki lífsnauðsynleg, en eru alténd mikilvægur þáttur í friði á vinnumarkaðinum.

Þar sem þjóðartekjurnar fara að tveimur þriðju hlutum í einkaneyzlu, er óhjákvæmilegt, að áfallið í hinu fyrra hafi veruleg áhrif á hið síðara. Þjóðin verður að herða svonefnda sultaról, þótt lýðskrumarar haldi öðru fram.

Bráðabirgðalögin hafa í för með sér 6% minnkun kaupmáttar ráðstöfunartekna fólks á næsta ári, til viðbótar því 1%, sem verður á þessu ári. Þetta eru harðir kostir og ná þó ekki sama tíunda hlutanum og samdráttur þjóðarteknanna.

Ástæðulaust er að gera lítið úr byrðunum, sem bráðabirgðalögin leggja á herðar þjóðarinnar. Margar fjölskyldur berjast í bökkum nú þegar og sjá enga greiða leið til að taka á sig 6% kaupmáttarrýrnun til viðbótar.

En tapi þjóðarinnar verður að dreifa, hvað sem tautar og raular. Bráðabirgðalögin gera ráð fyrir, að þjóðin taki sem neytendur á sig tæplega helming þjóðartapsins. Lögin eiga að minnka 10% viðskiptahalla þessa árs í 6% á hinu næsta.

Bráðabirgðalögin eru bráðnauðsynleg forsenda þess, að þjóðin sigrist á erfiðleikunum. En við þau ein má ekki sitja. Ríkið sjálft verður að taka þátt í samdrættinum, sem forráðamenn þjóðarinnar ætla heimilunum að bera.

Svonefnd samneyzla, það er ríkisrekstur, hefur aukizt ár frá ári, mælt í raunverulegum verðmætum. Nýja fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir, að dokað verði við á þessari leið, að samneyzlan standi í stað á næsta ári.

Þetta er til bóta, en ekki nægilega. Óbreytt samneyzla þýðir, að samdrátturinn kemur þyngra niður annars staðar, þar á meðal á ráðstöfunartekjum almennings. Alþingi ber því að skera niður samneyzluáform frumvarpsins.

Svo er enn ekki komið fram á alþingi þriðja lykilmálið, lánsfjáráætlunin. Þar mun koma fram, hve mikið ríkisstjórnin hyggst taka að láni á næsta ári til að kosta framkvæmdir. Þar hefur oft afgangi vandans verið kastað á herðar barna okkar.

Hin gífurlega þörf ríkisins á erlendu lánsfé til ótal nytsamlegra verkefna stafar af, að innlendum sparnaði hefur meira eða minna verið sóað í landbúnað, nýja skuttogara og önnur gæluverkefni, næstum því sykurver!

Sú liðna sóun verður ekki aftur tekin. Í staðinn verðum við nú að þola nauðsynlegan niðurskurð erlendra lána til nytjaverka, meðan verið er að afnema viðskiptahallann. Í því eins og öðru er vilji allt, sem þarf. En er hann til í sandkassa alþingis?

Jónas Kristjánsson.

DV