Erfðabreytta landið

Greinar

Öll ríki Vestur-Evrópu hafa bannað framleiðslu erfðabreyttra matvæla og útsæðis í löndum sínum. Nema Ísland. Allar þjóðir Vestur-Evrópu hafa átt kost á mikilli umræðu um kosti og galla erfðabreyttra matvæla og útsæðis. Nema Ísland. Hér var fyrsta málþingið um það efni haldið á þriðjudaginn.

Evrópusambandið var mörg ár í að kanna málið og búa til strangar reglur um, hvernig hugsanlega mætti flytja inn slíkar vörur til Evrópu. Ísland hefur ekki kannað málið. Landbúnaðarráðuneytið og Bændasamtökin ákváðu að leyfa ræktun erfðabreytts byggs hér á landi, án þess að málið væri rannsakað að hætti annarra ríkja og þjóða í Vestur-Evrópu.

Á málþinginu á þriðjudaginn talaði Carlo Leifert, prófessor í Newcastle og forstöðumaður 17 ríkja verkefnis um málið hjá Evrópusambandinu. Hann rakti ýmis dæmi um, að vísindamenn hafi vanmetið hættur af erfðabreyttri ræktun og lent í stóru tjóni. Hann taldi, að Ísland hefði meira eða minna rekið meðvitunarlaust í faðm hagsmunaaðila þessa iðnaðar.

Leifert taldi einnig það mundu verða slæma kynningu á Íslandi sem grænu ferðamannalandi, ef það væri eina landið í Vestur-Evrópu, sem heimilaði framleiðslu erfðabreyttra matvæla eða útsæðis. Almennt auglýsir Vestur-Evrópa og einstök héröð hennar sig sem erfðabreytingafrítt svæði.

Nánast allt Grikkland er auglýst erfðabreytingafrítt, einnig Ítalía og Austrríki, allt lönd, sem leggja mikla áherzlu á ferðamenn. Allt Suðurvestur-Bretland og Wales eru auglýst á sama hátt. Þannig hafa 3500 héruð í Evrópu beinlínis verið sett á slíka skrá að frumkvæði innlendra sveitarstjórna.

Sjö af hverjum tíu Evrópubúum er svo illa við erfðabreytt matvæli, að þeir vilja ekki sjá þau á hillum stórmarkaða. Engum verzlunarstjóra í Evrópu dettur í hug að hafa erfðabreytt matvæli á boðstólum. Evrópusambandið hefur sett strangar reglur um merkingar á umbúðum slíkra matvæla.

Ísland er ekki partur af þessari þróun. Ráfandi milli heimsku og æðis hafa ráðuneyti og bændasamtök gefið grænt ljós á starfsemi, sem nýtur ekki virðingar í Evrópu. Hér má selja erfðabreytt matvæli ómerkt og athugasemdalaust. Ísland liggur þar í sama feni og glæparíkin Rússland og Úkraína.

Nokkur íslenzk samtök, Landvernd, Neytendasamtökin, Matvæla- og veitingasambandið, Náttúrulækningafélagið og vottunarstofan Tún hafa opnað heimasíðu um þessi mál. Slóðin er “www.erfdabreytt.net”. Þar má finna margvíslegt efni, sem getur hjálpað fólki til að taka afstöðu í alvörumáli.

Ísland flýtur að þeirri óhjákvæmilegu niðurstöðu, að Evrópa öll loki á útflutning lambakjöts og annarrar búvöru frá landi, sem hefur tekið að sér hlutverk Guðs í þróuninni.

Jónas Kristjánsson

DV