Erfðabreyttar veirur

Greinar

Fuglaflensan er erfðabreyttur vágestur, sem til skamms tíma réðist eingöngu á fugla, en er nú farin að sækja á fólk, til dæmis í Víetnam, þar sem 33 hafa þegar dáið úr veirunni. Þar sem þetta er nýr sjúkdómur mannkyns, hefur fólk ekki mótefni gegn henni og þarf á bóluefni að halda, ef hún breiðist út.

Við höfum árvisst lesið um lífshættulega sjúkdóma, einkum flensur, sem berast með veirum um heiminn frá Austur-Asíu, aðallega frá Kína. Þessar ásóknir hafa tilhneigingu til að verða verri viðureignar með árunum. Einkum væri afleitt, ef riðusjúkdómar, sem hingað til hafa haldið sér við sauðfé og nautgripi, fara í auknum mæli að herja á mannkynið.

Þekkt eru dæmi um kúariðu í fólki í Bretlandi og víðar. Menn vita ekki, hvernig stendur á, að sumt í náttúrunni fer að hegða sér á nýjan hátt, en reikna með, að stökkbreytingar valdi erfðabreytingum af ýmsum ástæðum, allt frá auknu þéttbýli og skorti á hreinlæti yfir í mistök eða ásetning.

Dæmi eru til um stórslys í efnarannsóknastofum af völdum áður óþekktra sjúkdóma. Þótt fræðimenn telji sig sýna næga varúð, segir reynslan, að þeir vanmeta oft hættur, sem fylgja rannsóknum. Þar á ofan er það orðið keppikefli hryðjuverkamanna að komast í slíkar veirur og dreifa þeim.

Þekktasti stjörnufræðingur Bretlands, sir Martin Rees, prófessor í Cambridge, skrifaði fyrir ári bókina: Our Final Hour, þar sem hann metur meðal annars hættuna af nýjum sjúkdómum. Hann er telur þá raunar geta riðið siðmenningu nútímans að fullu einhvern tímann á næstu áratugum.

Hann minnir á eyðniveiruna, sem er illviðráðanleg og smitar nú fleiri en nokkru sinni fyrr. Hann nefnir kúariðuna, sem setti allt á annan endann í Bretlandi. Hann getur um miltisbrandinn, sem í Bandaríkjunum var sendur fólki í pósti. Hann nefnir stórubólu, sem er til á tilraunastofum.

Margar ríkisstjórnir hafa beinlínis reynt að rækta veirur til að nota í hernaði, til dæmis Sovétríkin og Bandaríkin, auk nokkurra harðstjórnarríkja. Þá er vitað, að glæpamenn og hryðjuverkamenn sækjast mjög eftir að koma höndum yfir slíkar veirur, þótt þær eigi að vera í öruggri geymslu.

Framleiðsla á veirum er þáttur erfðavísinda og líftækni. Allt þetta eykur hættuna á, að yfir okkur þyrmi sjúkdómur, sem verður eins og Svarti dauði fyrr á öldum. Við getum hér á Íslandi ekki hindrað efnahagsleg áhrif slíkra hörmunga, en við getum lokað landinu um tíma til að bjarga okkur sjálfum.

Við þurfum að eiga harða áætlun um skyndilokun landsins, þar á meðal fyrir landsmönnum á heimleið, þótt ekki sé nema til að fá nokkra daga eða vikur til undirbúnings gagnaðgerða.

Jónas Kristjánsson

DV