Erfðafræði breytir lífsstíl

Greinar

Líkur benda til, að þess sé ekki langt að bíða, að farið verði að meta ýmiss konar áhættu í erfðum fólks. Þetta ætti að geta flýtt aðgerðum, sem koma í veg fyrir sjúkdóma, svo að fólk fái færi á þeim í tæka tíð. Það ætti að gera fólki kleift að taka aukna ábyrgð á eigin heilsu.

Nýlega stofnað íslenzkt fyrirtæki hefur vakið mikla athygli erlendis, svo sem sjá má í víðlesnum tímaritum. Þetta er Íslensk erfðagreining, sem safnar íslenzkum erfðaefnum og upplýsingum um erfðir. Með rannsóknum er leitað að litningum sem stjórna þessum erfðum.

Flestir algengir sjúkdómar liggja að hluta í erfðum, þar á meðal menningarsjúkdómar nútímans, svo sem hjartabilun, krabbamein og áfengissýki. Sumir eru að erfðum veikari fyrir ákveðnum sjúkdómum en annað fólk og þurfa því að gæta sín betur en aðrir.

Að baki sjúkdóma liggja fleiri áhættuþættir, einkum umhverfisþættir á borð við uppeldi og menntun, skapgerð og mataræði, störf og venjur, fjölskylduaðstæður og félagsskap. Mikið framboð eiturlyfja á borð við nikótín og alkóhól er einnig mikilvægur áhættuþáttur.

Ef fólk fær í tæka tíð að vita, að það kunni að hafa fengið í arf meiri líkamlega viðkvæmni fyrir ákveðnum sjúkdómum heldur en gengur og gerist, getur það fyrr en ella tekið á áhættuþáttum umhverfisins og þannig dregið úr líkum þess, að erfðir skapi sér vandamál.

Á slíkum forsendum getur fólk fyrr en ella gripið til almennra aðgerða, sem stuðla að góðri heilsu. Þar á meðal er minni neyzla á kjöti, hertri fitu og sykri, aukin neyzla grænmetis, svo og annað mataræði í samræmi við meðmæli Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar.

Aðrar almennar aðgerðir felast í hóflegri hreyfingu á borð við göngu, skokk, sund og hjólreiðar. Ennfremur slökun af margvíslegu tagi, sem vinnur gegn áhættuþáttum af völdum taugaveiklaðs umhverfis. Allar slíkar aðgerðir eru ódýrar og í valdi hvers og eins.

Á sömu forsendum getur fólk fyrr en ella gripið til sértækra aðgerða til mótvægis þeim sérstöku áhættuþáttum, sem tengjast forfeðrum þess. Þannig geta erfingjar hjartabilunar hafnað kjöti og hertri fitu og þannig geta erfingjar áfengissýki hafnað alkóhóli.

Íslenzku erfðafræðirannsóknirnar gagnast mannkyni öllu, ef af þeim spretta gagnleg lyf og ný ráð um fyrirbyggjandi aðgerðir. En þær gagnast mest því fólki, sem er í sjálfum erfðabankanum. Það eru forréttindi Íslendinga að vera einmitt hinn rannsakaði hópur.

Að sjálfsögðu þarf að kosta miklu til að fara sérstaklega vandlega með upplýsingar, sem snerta einstaklinga, svo að óviðkomandi aðilar geti ekki komizt í þær og valdið þeim tjóni, til dæmis með því að raða þeim í áhættuflokka, til dæmis í starfi eða líftryggingu.

Vel heppnuð varðveizla einkamála í tengslum við erfðabanka sést á þann hátt, að utanaðkomandi aðilar geta ekki notað upplýsingarnar, en viðkomandi fólk getur sjálft notað þær til að haga lífi sínu að nokkru leyti á annan hátt, en það hefði að öðrum kosti gert.

Því fleiri, sem nota slíkar upplýsingar til að taka aukna ábyrgð á eigin heilsu, þeim mun auðveldara verður fyrir samfélagið í heild að axla almenna ábyrgð á heilsufari þjóðarinnar. Um þessar mundir er ríkið hins vegar fjárhagslega að sligast undir sinni ábyrgð.

Þótt margir taki ábyrgð á eigin heilsu án sérstakrar hvatningar af erfðafræðilegum toga, má samt búast við, að slík hvatning muni ráða úrslitum hjá miklu fleiri.

Jónas Kristjánsson

DV