Bandaríkin hafa misst sæti sitt í mannréttindanefnd og fíkniefnavarnanefnd Sameinuðu þjóðanna. Þetta eru dæmi um aukna einangrun þeirra á alþjóðavettvangi, sem stafar meðal annars af vaxandi einangrunarhneigð í landinu sjálfu og vaxandi einstefnu þess í alþjóðamálum.
Fallið úr mannréttindanefndinni er sérkennilegt, því að kjöri náðu ríki á borð við Súdan, þar sem engin mannréttindi eru virt. Dauðarefsingin í Bandaríkjunum og neitun þeirra á aðild að Alþjóða stríðsglæpadómstólnum eru léttvæg í alþjóðlegum samanburði mannréttindabrota.
Að vísu féllu Bandaríkin ekki fyrir Súdan, heldur fyrir Frakklandi, Svíþjóð og Austurríki, því að kosningin var svæðisbundin. Eigi að síður eru það heimsviðburðir, þegar frumkvöðull stofnunar Sameinuðu þjóðanna getur ekki lengur náði kjöri í mikilvægustu nefndir þeirra.
Ein helzta skýringin er, að ríki heims eru orðin dauðþreytt á skuldseigju Bandaríkjanna, sem ekki vilja borga hlutfallslega eftir landsframleiðslu eins og ríki Vestur-Evrópu. Þótt kostnaðarhlutdeild Bandaríkjanna hafi verið minnkuð, greiða þau ekki skuldir sínar.
Önnur þungvægasta skýringin er, að bandaríska þingið er orðið svo einangrunarsinnað, að það staðfestir ekki lengur alþjóðlega sáttmála. Þar rykfalla núna um sextíu slíkir sáttmálar, sem fulltrúar Bandaríkjastjórnar hafa raunar skrifað undir, sumir hverjir afar mikilvægir.
Alþjóða mannréttindadómstóllinn og Kyoto-sáttmálinn eru frægustu dæmin um þetta. Án aðildar að slíkum stofnunum eru Bandaríkin máttvana sem heimsveldi. Þau geta beitt umhverfið hótunum og ógnunum, en þau hætta smám saman að geta veitt heiminum forustu.
Framlög á fjárlögum Bandaríkjanna til alþjóðamála hafa rýrnað um helming á tveimur áratugum. Bandaríkin leggja mun lægra hlutfall landsframleiðslu til þróunaraðstoðar en flest ríki Evrópusambandsins og eru nú með lægsta hlutfall sitt frá því að skráning þess hófst.
Jafnframt aukast efnahagslegar ýfingar milli Bandaríkjanna og umheimsins. Árið 1999 voru skráðar viðskiptaþvinganir gagnvart sjötíu ríkjum heims, flestar meira eða minna árangurslitlar. Þær sýna meiri áhuga á að ögra umheiminum en að hafa forustu fyrir honum.
Bandaríkjamenn skilja ekki erlend tungumál og vilja ekki læra að skilja þau. Þeir eiga í samskiptum og samkeppni við evrópska diplómata, sem tala reiprennandi hvert tungumálið á fætur öðru, svo sem greinilegast má heyra á göngum stofnana Evrópusambandsins.
Milljónir manna um allan þriðja heiminn hata Bandaríkin hreinlega eins og pestina vegna hremminga, sem þetta fólk, ættingjar þess og vinir hafa mátt þola af hálfu alls konar harðstjóra, einræðisherra og hreinna brjálæðinga, sem Bandaríkin hafa stutt til valda.
Aukin einangrun Bandaríkjanna á fjölþjóðavettvangi byggist á ýmsum slíkum atriðum. Einnig er að koma í ljós, að máttur þeirra til hernaðarlegra afskipta hefur minnkað, svo sem sjá mátti í Líbanon og Sómalíu. Menn eru því minna hræddir við Bandaríkin en áður.
Einangrunarstefna Bandaríkjanna gæti verið nothæf, ef þau væru sjálfbær og þyrftu ekki að stunda viðskipti og samskipti við umheiminn. Hún kom til álita, áður en Bandaríkin lentu í tveimur heimsstyrjöldum og urðu þungamiðja alls kyns alþjóðasamstarfs. En ekki nú.
Verst er, að áföllin í utanríkismálum eru til þess fallin að efla óbeit Bandaríkjamanna á umheiminum og magna vítahring bandarískrar einangrunarstefnu.
Jónas Kristjánsson
DV