Kosningaúrslitin frá Írak sýna, að samtök ofsatrúarmanna hafa sigrað í öllum fylkingum, en borgaraleg samtök hafa tapað. Meðal þeirra, sem töpuðu, var flokkur Ijad Allawi, sem Bandaríkin gerðu að leppstjóra, og flokkur Ahmed Sjalabi, sem taldi Bandaríkjunum trú um að fara í stríð. Sá síðari fékk engan þingmann. Erkiklerkurinn Ali Sistani er áhrifamestur í landinu, en aukizt hafa völd hins róttækari erkiklerks, Moktada al-Sadr. Fullreynt er orðið í hverjum kosningunum á fætur öðrum, að vinir Bandaríkjamanna eru sárafáir í Írak.