Erlend aðild að útgerð

Greinar

Vegna aðgangs sjávarútvegsins að auðlind hafsins vilja flestir fara varlega í að heimila erlendum aðilum að eiga í innlendum fyrirtækjum í sjávarútvegi. Fyrir Alþingi liggja um þetta efni þrjú frumvörp, sem eiga það sameiginlegt að setja skorður við erlendri eignaraðild.

Ef ekki væri þessi sérstaða, væri ekki ástæða til að setja aðrar reglur um sjávarútveg en aðra atvinnuvegi. Hins vegar er hægt að haga málum á þann veg, að ekki þurfi sértækar reglur. Það gerist með að skilgreina eignarhald auðlindarinnar skarpar en nú er gert.

Ef auðlindin er skilgreind sem þjóðareign í umsjá ríkisvaldsins og leigð notendum í samræmi við ótal tillögur, stórminnkar öryggisleysið, sem fylgir erlendri eignaraðild að fyrirtækjum í sjávarútvegi, því að hún felur þá ekki í sér eignaraðild að sjálfri auðlindinni.

Ef til viðbótar væri tryggt í lögum, að allur sjávarafli færi á markað á Íslandi, væri búið að girða fyrir allar hættur, sem kynnu að vera samfara erlendu eignarhaldi í sjávarútveginum. Slíkar aðferðir eru skynsamlegri en að binda beina eða óbeina eignaraðild við prósentur.

Raunar er kyndugt, að þjóð, sem seilist til áhrifa í erlendum sjávarútvegi, skuli hamla gegn erlendri fjárfestingu í innlendum sjávarútvegi. Íslenzk fyrirtæki hafa keypt ráðandi hlut í þýzkum fyrirtækjum í sjávarútvegi, en vilja ekki fá á móti slíka samkeppni að utan.

Fyrr eða síðar kemur að því, að fjölþjóðlegt samstarf neyðir okkur til að gæta jafnréttis í þessu efni sem öðrum. Við getum ekki heimtað opinn aðgang að erlendum fyrirtækjum og heft aðgang að innlendum fyrirtækjum á sama tíma. Hömlur eru því ekki langtímalausn.

Við megum ekki heldur gleyma, að kaup íslenzkra fyrirtækja á þýzkum fyrirtækjum veita íslenzku áhættufjármagni til eflingar þýzks atvinnulífs. Hvers vegna skyldum við ekki alveg eins vilja soga erlent áhættufjármagn til eflingar íslenzks atvinnulífs?

Það er réttlátt, hagkvæmt og óumflýjanlegt að takmarka ekki erlenda eignaraðild að íslenzkum sjávarútvegi. Samt getum við varið auðlindina með skarpari skilgreiningu á eignarhaldi hennar og verndað umsvifin í landi með skilmálum um sölu sjávarfangs á markaði.

Frumvörpin þrjú, sem Alþingi hefur til umfjöllunar, eru vel meint, en grípa ekki á réttum stað inn í ferilinn. Í framkvæmd verða þau alltaf ranglát, óhagkvæm og skammvinn. Varanleg lausn fæst hins vegar með veiðileyfagjaldi og söluskyldu á innlendum fiskmarkaði.

Bezta leiðin er að bjóða fiskveiðileyfin út á alþjóðlegum markaði með ákvæðum um löndunarskyldu. Þannig heldur þjóðin hjá sér fullum arði af eignarhaldi auðlindarinnar og af innlendri veltu í kringum fiskmarkaðina, en útgerðin heldur hagnaði af eigin rekstri.

Frumvörpin þrjú bera með sér, að pólitísku öflin í landinu viðurkenna, að núverandi hömlur eru óframkvæmanlegar, enda eru þær brotnar án þess að neitt sé gert í málunum. Frumvörpin fela í sér skipulegt undanhald í átt til þess frelsis, sem óhjákvæmilegt er um síðir.

Í stað þess að lifa í stöðugum ótta við breytingar í umhverfinu og fara alltaf í flæmingi undan óhjákvæmilegri þróun eigum við að taka frumkvæðið og notfæra okkur kostina við að ganga beint til verks og sveigja hina óhjákvæmilegu þróun að langtímahagsmunum okkar.

Uppboð veiðileyfa og löndunarskylda eru sameiginlega heppilegri en reglur um takmarkaðar prósentur í beinni eða óbeinni aðild útlendinga að sjávarútveginum.

Jónas Kristjánsson

DV