Íslendingar sögðust vera hressir í skammdeginu í viðtölum, sem birtust nýlega í New York Times. Þegar nánar var spurt, kom í ljós, að hamingjan var ekki alger, heldur saknaði einn vistar sinnar í London, annar vildi búa á Spáni og sá þriðji viðurkenndi, að hann væri að byrja að venjast skammdeginu.
Hér á landi er krafan að vera hress. “Ertu ekki hress?”, ertu spurður. Þú svarar ekki: “Nei ég er ekki hress, en þó ekki beinlínis þunglyndur, heldur svona stundum dálítið daufur í skammdeginu.” Þú segist vera hress, þótt fólki sé í rauninni ekki eðlilegt að vera síhresst, heldur í bylgjum.
Fyrr og síðar hafa verið sjónvarpsþættir, þar sem flaggað er formúlunni: “Ertu ekki hress, eru ekki allir hressir hérna?” Krafan er sleitulaus. Sumir fara að halda, að eitthvað sé að, ef þeir eru stundum milt þunglyndir, haldnir kvíða fyrir morgundeginum eða þeim finnst myrkrið verða of langvinnt.
Vikurit er gefið út um hressa fólkið, sem er að gifta sig, sama fólkið og var að skilja fyrir hálfu ári og að gifta sig fyrir ári. Ritið fjallar um undirmálsfólk, sem virðist meira eða minna ruglað, en er rosalega hresst á myndunum. Það getur svo ekki tekið sig saman í andlitinu, þegar hvessir.
Margar síður eru í dagblöðunum um fræga útlendinga, sem eru svo hallærislegir, að þeim helzt ekki árið á makanum. Þeir eru fullir á börunum, halda framhjá og síðast fremja þeir sjálfsmorð eða drekka sig bara í hel. Lesendur virðast hafa mikla aðdáun á þessu fólki, sem kann ekki að lifa lífinu.
Lausnir eru til við öllu. Óþæg börn eru sögð ofvirk og fá rítalín í kroppinn. Þegar þau eldast, útvega þau sér áfengi. Síðan eða samhliða koma létt og þung eiturlyf á svörtum. Íþróttamenn fá stera, konur fá botox. Miðaldra fólk fær svo viagra fyrir kvöldið og prozak til að mæta nýjum degi.
Eins og Bandaríkjamenn erum við þjóð á hamingjulyfjum, löglegum og ólöglegum, gagnslitlum eða gagnslausum. Nú fá þeir seroxat, ef þeir eru feimnir, og bráðum fáum við það líka. Allt er leyst með pillum að ráði lyfjarisa, sem líkt og tóbaksrisar hafa skipulega haldið aukaverkunum leyndum.
Jólin eru erfiður tími í þessari hringrás óhamingjunnar. Menn dansa kringum guð sinn, sem í flestum tilvikum heitir Mammon. Fólk þarf meira rítalín, meira áfengi, meira hass, meira kókaín, meiri stera, meira botox, meira viagra og meira prozak. Og næst þarf að prófa seroxat við feimni.
Ranghugmyndir um eðlilegt ástand sálar og líkama kalla á vonlausan eltingaleik við síhressu, sem nær svo langt, að í könnunum segjumst við rosalega hamingjusöm. Jafnvel um jól.
Jónas Kristjánsson
DV