Esja

Veitingar

Esja venst vel. Vandaðar innréttingar hafa haldizt óbreyttar og lítið slitnað með árunum, þrátt fyrir mikið álag. Þykkt teppi temprar ferðamannaglauminn og lágstillt dósatónlist truflar engan. Mild ljós, mildir litir og speglar með hengiplöntum tempra hinar ströngu og þéttu mötuneytisraðir borðanna. Þótt Esjan sé ópersónuleg, er hún um leið næsta hlýleg.

Þríréttað val af fastaseðli kostar 3600 krónur með kaffi, sem er allt of mikið. Okrið er temprað með súpu dagsins og sjávarréttahlaðborði, sem kosta 1100 krónur í hádeginu og 1900 krónur á kvöldin, svo og tveimur seðlum dagsins á 1200 og 1900 krónur. Þjónusta er góð og veit hver pantaði hvað, jafnvel við fjölmenn borð.

Af lítt breytilegu og leiðigjörnu sjávarréttahlaðborði geta ferðamenn kynnt sér sýnishorn ýmissa fisktegunda og matreiðsluaðferða. Þar voru í hitakössum ufsi, karfi, ýsa, blálanga og steinbítur. Þar var djúpsteikt, súrsætt, smjörsteikt, kryddlegið, svo og fiskibollur og plokkari. Í kalda hlutanum voru nokkrar verkanir á síld og laxi, rækjur og lax í hlaupi og ýmislegt til salatgerðar. Þetta var fróðleg kynning, en ekki bragðgóð.

Súpur voru flestar hveitilausar og frambærilegar, þar á meðal tær tómatsúpa dagsins með grænmeti, þunn lauksúpa með brauðskorpuþaki og þykk fiskisúpa úr humarsoði með rækjum og stórum hlunkum af lúðu og laxi.

Í sveiflukenndri eldamennsku bar nokkuð á löngum eldunartímum. Það sem heitir snöggsteikt á matseðli var yfirleitt ofeldað. Ofsteiktur (“snöggsteiktur”) risahörpufiskur var með of sterkri saffransósu og grænmeti í tartalettu. Ofsteiktir (“snöggsteiktir”) sjávarréttir voru með of sterku karrí, bornir fram með rækjum, hnetum, hrísgrjónum og eins konar laufabrauði.

Rjómasoðinn karfi var hæfilega eldaður, borinn fram með rækjum og hæfilega mildri gráðostsósu. Glóðaður lax var lítillega ofeldaður, með þykkri og rauðri paprikusósu, heilum sesamfræjum og brenndu grænmeti.

Léttsteiktur lambahryggur var bezti rétturinn, meyr og góður, borinn fram með fínu hvítlauks- og rósmarínseyði, léttsteiktu grænmeti og bökuðum tómötum með osti og raspi. Ofsteikt gæs með ofsteiktu grænmeti, eplum og villisveppasósu var hins vegar ekki merkilegur matur.

Ostaterta var hefðbundin og létt, með mikilli sultu og þeyttum rjóma. Crème caramel reyndist vera léttur vanillubúðingur með þunnri karamellusósu. Charlotta með koníaksfyllingu og ávaxtasósu reyndist vera hörð kaka utan um ís, borin fram með jarðarberjum og þeyttum rjóma. Kaffi kom úr sjálfsala.

Jónas Kristjánsson

DV