Esjuberg

Veitingar

Esjuberg er heppilegur fjölskyldu-matstaður. Þar er hægt að geyma ungviðið í föndurkrók meðan unglingarnir borða tiltölulega sæmilega hamborgarar og foreldrarnir eggjaköku, kannski með hálfri vínflösku. Eina skilyrðið er, að ekki séu gerðar kröfur til matreiðslunnar.

Þessi hrikalega stóra veitingastofa er ekki eins kuldaleg og við mætti búast. Innréttingar eru snyrtilegar og í senn hæfilega einfaldar og fjölbreyttar. Leikurinn með viðinn í loftinu rýfur einhæfni hússins.

Gott pláss er milli borða og hreinlæti er í bezta lagi. Hávaðasamt getur orðið á annatímum, en samhljómur skvaldursins hefur ekki óþægileg áhrif. Ekkert hindrar þig í að taka lífinu með ró – nema vera skyldi maturinn.

Þegar ég gerði úttekt á Esjubergi fyrir Vikuna um daginn, ríkti fullkominn geðklofi í baktjaldatónlistinni. Úr annarri áttinni heyrðist sinfónían spila Bela Bartók og Antonin Dvorák, en úr hinni áttinni heyrðist spilað úr léttum söngleikjum. Það getur kostað fótaskort að gera öllum til geðs.

Til skamms tíma hefði Esjuberg átt að fá fimm í einkunn fyrir umhverfi og andrúmsloft. En barnakrókurinn er svo skemmtileg og hugnæm nýjung, að ómögulegt er að gefa staðnum minna en átta fyrir þennan þátt. Þrátt fyrir tvöfalda tónlist.

Í barnakróknum eru húsgögn við hæfi barna, bækur og kubbar og púsluspil, litir og pappír. Og listaverk barnanna hanga uppi á vegg. Fyrir þessu er skylt að hrópa húrra, sem og fyrir barnastólunum, sem hægt er að hafa við matborðin.

Gott væri, ef húsráðendur sýndu þá smekkvísi að breyta skiltum, sem á stendur: “Vinsamlega Sýnið Kassakvittun Við Móttöku Sérrétta”. Ofnotkun upphafsstafa getur kannski gengið á amerísku, en engan veginn á íslenzku.

Síld
Marineruð síld með brauði og smjöri reyndist vera eitt síldarflak, stórt og slétt og fallegt, án allrar sósu, en með eggsneið og kartöflu. Þetta var góð síld, bezti maturinn í prófun Vikunnar, ef frá er skilið hrásalatið, sem síðar verður rætt.
Verðið er 2.170 krónur sem forréttur.

Graflax
Graflax með sinnepssósu og ristuðu brauði var vondur á bragðið, hugsanlega skemmdur. Hann var grár í gegn, þurr og bragðlaus. Hann var vafinn utan um linan og bragðlausan spergil úr dós. Gúrkan og sítrónan voru æt og sinnepssósan var í sæmilegu lagi. Í heild var þessi furðulegi réttur upp á hreint núll í einkunn.
Matreiðslumenn Esjubergs virðast hafa tekið eftir því, að í útlöndum er matur stundum vafinn upp á spergil. En þá er um ferskan og ætan spergil að ræða. Slíka matargerð er útilokað að þýða á íslenzku með handafli og dósahníf.
Verðið er 3.380 krónur sem forréttur.

Esjugratín
Esjugratín reyndist vera kræklingur, rækjur og spergilbitar ásamt dálitlu af sítrónu, tómati og steinselju, ofnbakað í osti. Þetta var bragðgóður matur, ef sneitt var hjá sperglinum. Með þessu voru borin fram ágæt hrísgrjón með óhugnanlegri, hvítri hveitisósu með hveitibragði.
Verðið er 3.350 krónur sem aðalréttur og fæst ekki á lægra verði sem forréttur.

Ýsa
Steikt fiskflök með ristuðum rækjum, spergli og hvítvínssósu reyndist vera pönnusteikt ýsa, sæmileg á bragðið og sennilega fersk. Sæmilegasta hrásalat fylgdi, svo og franskar kartöflur. Þær voru með þeim betri, sem ég man eftir, hæfilega steiktar og án aldraðs olíubragðs.
Þessi ýsa hafði ekki verið eyðilögð í matreiðslu. En henni hafði verið spillt með svokallaðri hvítvínssósu. Það var hveitisósa, byggð á grunni mjög lélegs hvítvíns. Það er misskilningur, að komast megi billega frá víni í sósu.
Verðið er 3.460 krónur sem aðalréttur og fæst ekki á lægra verði sem forréttur.

Hrásalat
Hrásalat fylgdi þeim réttum, sem sagt verður frá hér á eftir. Esjuberg hefur komið á hinni skemmtilegu nýjung, sem víða sést í Bandaríkjunum, að hafa sérstakt salatborð, sem gestir eiga sjálfir að sækja í. Getur þá hver blandað sér hrásalat við hæfi.
Á boðstólum var gott ísberg-kál; aldrað hvítkál frá hádeginu; paprika, ekki úr dós eða frysti; sæmilegur maís; bragðlausir skinkubitar; góðar mandarínur; ætir tómatar; vondar sýrugúrkur; ágætar hreðkur; og tvær sómasamlegar sósur, önnur úr tómati og hin úr sinnepi.
Úr þessu gat ég moðað mér salat úr ferskum og góðum hráefnum, því að auðvelt var að forðast hið lélega. Satt að segja var þetta hrásalat hápunktur máltíðarinnar, ágætis auglýsing gegn þeirri firru, að heilnæmur og náttúrulegur matur sé kanínufóður.
Hrásalatið hefði þó auðveldlega getað verið enn betra. Ég saknaði sítrónubáta og olífuolíu, svo að ég gæti hrist olíusósu. Ennfremur var salatborðið fremur óhrjálegt. Til dæmis voru sósurnar með skán. Svona borði þarf að sinna á nokkurra mínútna fresti.
Verðið er 560 krónur, ef hrásalatið er keypt sérstaklega. Það eru langbeztu kaupin á Esjubergi.

Nautamörbráð
Franskt buff með kryddsmjöri, frönskum kartöflum, belgbaunum og hrásalati var ákaflega dularfullur matur. Hráefnið virtist þó vera gott, hvaðan sem það var ættað og kjötið var lungamjúkt og alveg laust við seigju.
Að því leyti hefði það átt að reynast “lítið steikt”. Liturinn var hins vegar grár langt inn í kjöt og bleikur einungis í miðju, alveg eins og kjötið væri mitt á milli “miðlungs” og “fullsteikts”. Svo reyndist það þurrt og gersamlega bragðlaust, eins og um þrælsteikt kjöt væri að ræða.
Á þessu furðuverki hef ég enga skýringu. Einkunnin er hreint núll. Í stíl við kjötið voru svo 100% bragðlausar belgbaunir (úr dós?). Hins vegar slapp ég við hveitisósu. Og frönsku kartöflurnar voru frambærilegar, sem og þær, er fylgdu öðrum réttum Esjubergs.
Verðið er 6.130 krónur, “bortkastede penge”.

Lambalæri
Marineraðar lambalærissneiðar voru á matseðli dagsins, þunnar sneiðar harkalega grillaðar og dálítið brenndar, gráar í gegn og ótæpilega kryddaðar. Samt var enn eftir í þeim dálítil safi, svo að þær voru alveg ætar.
Brúna hveitisósan, sem fylgdi, var harkalega pipruð. og gratineruðu kartöflusneiðarnar voru vægast sagt óhugnanlegur óskapnaður. Það er furðulegt, að starfsfólk í eldhúsi skuli vera látið hafa svona mikið fyrir jafnvondum mat og þarna kom í ljós.
Verðið er 3.600 krónur.

Svínahryggur
Svínahryggur Róberts var einnig á matseðli dagsins og líka með sama óhugnanlega meðlætinu, hveitisósunni og hinum ólýsanlegu kartöflusneiðum og piparsósunni. Einnig fylgdu hinar bragðlausu belgbaunir, sem áður er getið og einn einmana biti af gulrót úr dós.
Svínakjötið sjálft var hins vegar vel meyrt og ágætt á bragðið. Það átti sannarlega ekki meðlætið skilið.
Verðið er 4.770 krónur.

Kínverskar pönnukökur
Kínverskar pönnukökur voru rúsínan í pylsuenda þessarar prófunar, ofsalega vondar á bragðið. Pönnukökurnar voru þykkar og linar og hveitibragðið leyndi sér ekki. Innvolsið var enn ógeðslegra. Það var blanda til helminga af hrísgrjónum og matarolíu.
Ég minnist þess ekki að hafa komizt í snertingu við óhugnanlegri mat á ævinni. Ég fær gæsahúð af endurminningunni. Einkunnin er mínus 21.
Verðið er 2.620 krónur.

Vín

Esjuberg hefur ákaflega takmarkað vínúrval á boðstólum. Innan um eru þar góð vín. Af rauðvínum Chianti Classico á 3.840 krónur og af hvítvínum Chablis á 4.675 krónur og Edelfräulein á 3.840 krónur. Einnig má nefna rauðvínin Mercurey og Saint-Emilion.

Vínveitingar hafa ekki spillt andrúmslofti eða yfirbragði Esjubergs. Hin langa og góða reynsla, sem þar hefur fengizt af hófsemi gesta, ætti að vera yfirvöldum tilefni til að leyfa veitingar léttra vína í fleirum af hinum snyrtilegri veitingahúsum borgarinnar.

Of lítill munur

Meðalverð 10 forrétta, millirétta og eggjarétta er nokkuð hátt á Esjubergi, 2.500 krónur. Það er eins hátt og í Nausti og næstum eins hátt og á öðrum vínveitingahúsum, sem veita þó þjónustu til borðs.

Meðalverð 19 aðalrétta úr fiski eða kjöti er 4.700 krónur á móti 8.000-8.500 krónum á vínveitingahúsunum með þjónustu, Sögu, Holti, Nausti og Loftleiðum. Sá verðmunur virðist vera minni en sem svarar hæfilegri endurspeglun gæðamunar.

Esjuberg býður aðeins upp á fjóra eftirrétti, þar af þrjá hversdagslega ísa og svo skyr. Meðalverðið er tæpar 900 krónur. Auk þess má kaupa þar nokkrar tegundir af tertum. Veitingastofan er því nánast stikkfrí í eftirréttum.

Ef keypt er þríréttuð máltíð með kaffi og hálfri vínflösku (Chianti) á mann, ætti meðalmáltíðin að kosta um 10.300 krónur á móti 14.500-16.300 krónum á hinum vínveitingahúsunum. Þessi munur finnst mér of lítill.

Mér mundi hins vegar ekki finnast hann of lítill, ef matsveinar hússins tækju á sig rögg og byrjuðu að elda af innlifun, starfsgleði, nákvæmni og virðingu fyrir góðum hráefnum. Á það skortir mjög eins og prófunin leiddi greinilega í ljós.

Gallar matreiðslunnar eru þess eðlis, að ekki ætti að vera kostnaðarsamt að bæta úr þeim. Innlifun, starfsgleði, nákvæmni og virðing fyrir hráefnum kosta ekki peninga. Og alténd mætti spara innkaup á dósamat.

Fjölskyldusnarl

Esjuberg er ekki staður til að kaupa sér dýran, flókinn og viðamikinn veizlumat. Enginn ætti að búast þar við matargerðarlist. Kostir staðarins eru á allt öðru sviði.

Þetta er fjölskyldustaður, þar sem hægt er að fá einfalt snarl eins og síld, eggjaköku eða hamborgara fyrir skikkanlegt verð – og jafnvel dreitil af léttu, ef hugurinn er móttækilegur. Og ekki má gleyma frönsku kartöflunum.

Mest um vert er þó, að ráðamenn Esjubergs eru óvenju vinsamlegir í garð barna, eins og hér hefur verið rakið að framan. Barnakrókurinn er ein af athyglisverðustu nýjungum í veitingarekstri hér á landi.

Á Esjubergi kostar marinerað síldarflak 2.170 krónur, eggjakaka 1.500 krónur, hamborgari 1.130-1.370 krónur og smurbrauð 2.090 krónur. En ekki má heldur gleyma því, að hinir vönduðu matsölustaðir bjóða líka upp á tiltölulega ódýra rétti fyrir börn og fullorðna.

Í Nausti kosta þrjár tegundir síldar 2.935 krónur og smurbrauð 2.075 krónur. Í Holti kostar smurbrauð 1.875 krónur, eggjakaka 2.275 krónur og djúpsteiktar rækjur 3.100 krónur. Á Loftleiðum kostar eggjakaka 2.530 krónur og síldarbakki 2.850 krónur. Og á Sögu kostar smurbrauð 1.850 krónur, eggjakaka 2.150 krónur, kræklingur 2.185 krónur, síldarbakki 2.970 krónur og smálúða 3.010 krónur. Hamborgara fyrir börn ætti að vera hægt að fá á þessum stöðum, þótt þess sé ekki getið á matseðlinum.

Matreiðslan á Esjubergi fær tvo í einkunn, vínlistinn tvo, umhverfi og andrúmsloft sjö. Ekkert er gefið fyrir matarþjónustu, því að hún er engin, en fyrir vínþjónustu fær Esjuberg dálitla hækkun. Heildareinkunn hússins er þrír.

Jónas Kristjánsson

Vikan