Umræðan um Sparisjóð Keflavíkur sýnir, að almennt éta Íslendingar hver úr sínum poka og hlusta ekki á aðra. Annars vegar segir fólk sjálfstæðismenn suður með sjó eiga sparisjóðsruglið. Hins vegar segir fólk Steingrím J. Sigfússon eiga sóun fjár við björgun sjóðsins. Hvort tveggja getur verið rétt. En menn hlusta bara á annað, ekki hitt. Annars vegar var sparisjóðnum klúðrað og hins vegar var björguninni klúðrað. Mönnum virðist fyrirmunað að skilja þetta og tyggja bara hálfan sannleikann eftir pólitískri þörf. Hitt er svo rétt, að sjálfstæðismenn hafa manna sízt efni á að skamma Steingrím.