Komið hefur í ljós, að landbúnaðarráðherra er enn að bauka við að lemja á neytendum til að halda uppi offramleiðslu og milljarðasóun í gælugrein allra stjórn málaflokka, landbúnaðinum. Í ár voru settar reglur í ráðuneytinu, sem takmarka aðgang fólks að grænmeti.
Í ráðuneytinu er sérstök nefnd, sem á að gæta þess, að íslenzkt grænmeti hafi forgang fram yfir erlent. Í nýju starfsreglunum er nefndin skylduð til að taka tillit til þess, ef ein tegund innflutts grænmetis hamlar sölu á annarri tegund, sem ræktuð er innanlands.
Fræðilega séð skylda reglurnar nefndina til að banna innflutning á hrísgrjónum, ef mikið framboð er af innlendum kartöflum. Neytendur gætu nefnilega látið sér detta í hug að kaupa hrísgrjón, þegar kartöflur væru betur við hæfi að mati ráðherra og ráðuneytis.
Líklegra er, að nefndin byrji á mildari aðgerð, svo sem að banna innflutning á kínakáli og ísbergssalati, þegar mikið framboð er af innlendu hvítkáli. Samkvæmt starfsreglunum ætti þessi innflutningur að leggjast af, þar sem hann hamlar sölu á innlendu vörunni.
Vopn landbúnaðaráðuneytisins snúa að fleirum en innlendum neytendum. Erlendir ferðamenn þyrftu auðvitað einnig að borða kartöflur og hvítkál, þótt þeir vildu hrísgrjón og kínakál. Má búast við, að Íslendingar verði fljótt kunnir af slíkri meðhöndlun ferðamanna.
Í raun er ráðherra með starfsreglunum að færa klukkuna aftur á bak til fyrri einokunartíma, þegar lands menn áttu í mesta lagi kost á eplum um jólin. Verið er að setja upp þá grundvallarreglu, að neytendur borði það, sem hentar í milljarðasukki landbúnaðarins.
Neytendasamtökin hafa mótmælt starfsreglum nefndarinnar í ráðuneytinu. Forustumenn þeirra hafa beðið um viðtal við forsætisráðherra, af því að þeir segja gamla reynslu af, að ekkert þýði að tala við landbúnaðarráðherra. Hann sé staurblindur sérhagsmunamaður.
Um leið er gott fyrir kjósendur að átta sig á, að vaxandi einokun í landbúnaði er ekkert náttúrulögmál. Það eru þeir sjálfir, sem hafa kosið hana yfir sig með eindregnum stuðningi við stjórnmálaflokka, sem alltaf hossa hagsmunum landbúnaðarins á kostnað neytenda.
Í stjórnarmyndunarviðræðum síðasta mánaðar kom greinilega fram, að enginn flokkur er fáanlegur til að víkja frá ríkjandi gæludýrastefnu í landbúnaði. Alþýðuflokkurinn amaðist lítillega við 28 milljarða búvörusamningnum, en gafst fljótlega upp á því.
Með milljarðasamningnum ábyrgðist ríkið 120 þúsund króna greiðsluskyldu á hverja fjögurra manna fjölskyldu á ári. Ef ríkið hefði gert sömu vörukaup í útlöndum, hefði verið unnt að hækka tekjur hvers einasta Íslendings um 8.000 krónur á mánuði.
Stjórnmálamenn okkar hafa verið að láta reikna og reikna fyrir sig skiptimynt á borð við kostnað af hækkun lágmarkslauna upp í 36.000 krónur á mánuði, á sama tíma og þeir ítreka, að ekki komi til mála að hrófla við milljarðabrennslu peninga í landbúnaði.
Kjósendur, sem í kosningum eftir kosningar fela stjórnmálamönnum af því tagi umboð til að stjórna landinu og fara með fjármál þess, þurfa ekki að verða hissa, þótt landbúnaðarráðherra skyldi þá til að borða kartöflur og hvítkál í stað hrísgrjóna og kínakáls.
Spurningin er raunar, hvort kjósendur og neytendur eiga ekki bara fyllilega skilið að sæta því, sem leiðtogi þeirra í landbúnaðarráðuneytinu skipar fyrir.
Jónas Kristjánsson
DV