Ofhitnun atvinnulífsins er gott dæmi um, að evran yrði okkur traustari gjaldmiðill en krónan er um þessar mundir. Með evru þyrfti fólk ekki að verða gjaldþrota af uppsprengdum vöxtum af húsnæðislánum og þjóðfélagið þyrfti ekki að hafa áhyggjur af hruni þjóðarsáttar vinnumarkaðarins um kaupið.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er í hópi þeirra, sem hafa bent á, að ástandið kallar á evru. Krónan ræður ekki við sveiflu og allra sízt, þegar stjórnvöld eru kærulaus í góðærinu og vilja láta hagkerfið sjá um sig sjálft. Seðlabankinn reynir að hækka vexti aftur og aftur, en getur ekki slökkt bálið.
Þótt kalla megi það lúxusvandamál að nöldra út af blússandi gangi í hagkerfinu, hættir það að vera lúxus, þegar mánaðarlegar greiðslur fólks út af húsnæðislánum fara langt fram úr greiðslugetu þess. Það hættir líka að vera lúxus, þegar kjarasamningar verða lausir af völdum verðbólgunnar.
Evran er stór gjaldmiðill, sem heldur jöfnu verðgildi í heiminum. Krónan er lítill gjaldmiðill, sem sveiflast til og frá og veldur háum vöxtum. Fyrir löngu var vitað, að evran mundi lækka vexti í venjulegu árferði um 3 prósentustig. Í núverandi árferði mundi evran lækka vextina langtum meira.
Eins og margt Samfylkingarfólk vill Ingibjörg Sólrún ganga í Evrópusambandið. Það er líka skynsamleg tillaga. Öll ríki vilja ganga inn og fá færri en vilja. Aðild er hins vegar langt ferli og við getum ekki beðið með evruna. Það er líka rangt, að notkun hennar sé háð aðild okkar að sambandinu.
Við þurfum ekki strax að skipta um gjaldmiðil, aðeins að heimila notkun evru í daglegum viðskiptum og hvetja til notkunar hennar. Við þurfum að færa kjarasamninga og lántökur yfir í evru og gera hana gjaldgenga í viðskiptum. Við þurfum ekki einu sinni að biðja um leyfi frá Bruxelles.
Til langs tíma borgar sig líka að taka upp aðild. Við verðum fyrst að ganga frá erfiðum samningum um sjávarútveg, en þeir verða auðveldari en talið hefur verið, af því að stjórnvöld hafa hvort sem er gefið útgerðarmönnum kvótann. Að öðru leyti erum við vel búin undir samninga um evrópuaðild.
Evra og Evrópusamband munu ekki leysa allan vanda okkar, en aðild hefur þó reynzt smáríkjum ágæt aðferð við að bæta hag almennings og koma á betra jafnvægi í daglegu lífi fólks.
DV