George Monbiot segir í Guardian, að Bandaríkin muni ráða, hvernig öll ríki heims sitji og standi, nema Evrópa spyrni við fótum. Bandaríkin stefni að því að rústa allar fjölþjóðastofnanir á þeirri forsendu, að þær standi í vegi fyrir óheftu valdi Bandaríkjanna. Evrópa geti unnið gegn einræðinu með því að afla evrunni stöðu og festu sem alþjóðlegs gjaldmiðils, er leysi dollarinn af hólmi á ýmsum sviðum, svo sem í olíuviðskiptum. Þetta sé hægt, af því að fjármál ríkjanna, sem standa að evrunni, séu ólíkt traustari en botnlaus taprekstur Bandaríkjanna. Meira vit sé í að fórna minna af fullveldinu með því að taka upp evru í stað eigin gjaldmiðils, heldur en að fórna meiru af því með því að sitja og standa eins og Bandaríkin vilja.